Mótsagnir og misskilningur um tollasamning

01.11.2018

Félag atvinnurekenda hefur skilað utanríkismálanefnd Alþingis umsögn um tillögu þingmanna Miðflokksins til þingsályktunar, þess efnis að segja skuli upp tvíhliða tollasamningi um landbúnaðarvörur, sem gerður var við Evrópusambandið 2015 og tók gildi fyrr á þessu ári.

Í umsögn sinni bendir FA á ýmsar mótsagnir og misskilning í rökstuðningi flutningsmanna. Kostulegasta mótsögnin er mögulega að í hópi þeirra er maðurinn sem gerði samninginn á sínum tíma og lét hafa eftir sér að hann væri mikið fagnaðarefni. Meginmál umsagnar FA fer hér á eftir:

Félag atvinnurekenda fagnaði umræddum samningi þegar hann var gerður haustið 2015, undir forystu Gunnars Braga Sveinssonar, þáverandi utanríkisráðherra (sem jafnframt er af einhverjum ástæðum flutningsmaður tillögunnar sem hér um ræðir). Aukin fríverzlun á milli landa þjónar heildarhagsmunum. Í þessu tilviki græða neytendur á lægra vöruverði og meira úrvali og jafnframt framleiðendur búvara, sem fá greiðari aðgang að erlendum mörkuðum.

Flutningsmenn tillögunnar telja hins vegar að samningurinn sé óhagstæður Íslandi og tilgreina þar nokkrar ástæður. Hér að neðan er fjallað um einstök atriði í rökstuðningi flutningsmanna.

  1. Samningurinn endurspeglar ekki stærðarmun markaðanna. Í ríkjum Evrópusambandsins er 500 milljóna manna markaður en Íslendingar eru 340 þúsund. Tollasamningurinn á að færa íslenskum bændum sömu möguleika í Evrópu og Evrópusambandið fær hér á landi. Það gerir samningurinn ekki.

Ætla má að flutningsmenn eigi hér við að Evrópusambandið fái tollfrjálsan aðgang að hlutfallslega stærri hluta íslenzka markaðarins fyrir búvörur en Ísland fær í Evrópusambandinu. Það á sér vitanlega sínar ástæður. Eins og flutningsmenn benda á sjálfir er ESB um 1.450 sinnum fjölmennari markaður en Ísland (508 milljónir á móti 348.000 í upphafi árs). Ef Ísland fengi hlutfallslega jafnstóra tollfrjálsa innflutningskvóta í ESB og ESB fær á Íslandi, myndu þeir samsvara margfaldri framleiðslugetu íslensks landbúnaðar. Evrópusambandið gæti þá alveg eins fellt niður alla tolla á íslenskum búvörum, án þess að Ísland þyrfti að gera slíkt hið sama gagnvart Evrópusambandinu. Þetta ætti að liggja í augum uppi.

Hitt er svo annað mál, að samningurinn tekur talsvert tillit til stærðarmunar markaðanna og hagsmuna íslensks landbúnaðar eins og sjá má af yfirliti um breytingar á tollfrjálsum innflutningskvótum í samningnum:

Tollkvóti sem Ísland veitir ESB

Vara Tollkvóti fyrir samning (tonn) Tollkvóti eftir 4 ár (tonn)
Nautakjöt 100 696
Svínakjöt 200 700
Alifuglakjöt 200 856
Lífrænt alifuglakjöt 0 200
Saltað, þurrkað og reykt kjöt 50 100
Upprunaverndaður ostur 20 230
Ostur 80 380
Pylsur 50 250
Unnar kjötvörur 50 400
Samtals 750 3.812


Tollkvóti sem ESB veitir Íslandi

Vara Tollkvóti fyrir samning (tonn) Tollkvóti eftir 4 ár (tonn)
Kindakjöt 1850 3.050
Unnið kindakjöt 0 300
Svínakjöt 0 500
Alifuglakjöt 0 300
Skyr 380 4.000
Smjör 350 500
Ostur 0 50
Pylsur 100 100
Samtals 2.680 8.800

Þannig veitir ESB Íslandi tollkvóta fyrir búvörur sem er 5.000 tonnum, eða 2,3 sinnum, stærri en sá kvóti sem ESB veitir Íslandi. Tollkvóti fyrir skyr, sem er sú íslenska búvara sem hefur átt mestri velgengni að fagna á erlendum mörkuðum, var tæplega ellefufaldaður, auk þess sem samið var um verulega aukningu á tollkvóta fyrir kindakjöt og smjör, auk tollkvóta fyrir vörur sem áður áttu engan tollfrjálsan aðgang að markaði ESB, eins og kjúklinga- og svínakjöt og osta. Samtök bænda og afurðastöðva á Íslandi höfðu einmitt þrýst á um aukinn tollkvóta í Evrópusambandinu fyrir þessar vörur. Væntanlega hefur þeim ekki dottið í hug að þær kröfur fengjust fram án þess að Ísland stækkaði tollkvóta á móti.

  1. Ekki er tekið tillit til gengisbreytinga og samkeppnisfærni íslensks landbúnaðar í Evrópusambandinu í viðskiptum með kjötvörur.

Hér verður að ætla að flutningsmenn eigi við að eftir að samningurinn var gerður og þar til tillagan var lögð fram, hafi gengi íslensku krónunnar styrkst gagnvart evrunni og öðrum ESB-gjaldmiðlum og samkeppnisstaða íslenskra útflytjenda versnað fyrir vikið. Nú er það hins vegar svo að við búum við sveiflukenndan gjaldmiðil, sem hefur lækkað talsvert í verði frá því að þingsályktunartillagan var lögð fram og þannig bætt samkeppnisstöðu útflytjenda á ný. Það verður að teljast nánast óhjákvæmilegt að á næstu árum haldi krónan áfram að sveiflast og samkeppnisstaða íslenskra útflutningsgreina batni þannig og versni á víxl. Það virðist illgerlegt að ætla að taka tillit til sveiflna krónunnar þegar Ísland gerir alþjóðlega samninga um fríverslun.

  1. Verulega hallar á Ísland í viðskiptum með ost.

Flutningsmenn benda á að tollkvóti fyrir ost frá ESB sé 610 tonn, en kvóti fyrir íslenskan ost í ESB aðeins 50 tonn. Ekki er hægt að horfa eingöngu á jafnvægið innan einstakra vöruliða eða tollskrárnúmera við mat á samningnum. Tilslökun Íslands gagnvart osti frá ESB kom til dæmis á móti tæplega ellefuföldun tollkvóta fyrir íslenskt skyr í ESB. Íslensku samningamennirnir voru hins vegar engan veginn til viðræðu um tollkvóta eða tollalækkun fyrir jógúrt frá ríkjum ESB.

  1. Engin úttekt fór fram á því hvaða áhrif samningurinn frá 2015 hefði á innlenda búvöruframleiðslu.

Hér er gefið í skyn að áhrif samningsins á innlenda búvöruframleiðslu séu svo mikil að óforsvaranlegt sé að gera ekki sérstaka úttekt á slíku. FA bendir á að þrátt fyrir að tollkvótar fyrir búvörur frá ESB hafi verið stækkaðir verulega með samningnum, eru þeir áfram lágt hlutfall innanlandsneyslu. Ef miðað er við árið 2022, þegar ákvæði samningsins hafa komið að fullu til framkvæmda, verður tollkvótinn fyrir nautakjöt 11,6% af innanlandsneyslunni eins og hún var árið 2017, kvótinn fyrir svínakjöt verður 8,2%, fyrir kjúklingakjöt 9% og fyrir ost 5,6%. Ætla má að þessi hlutföll fari lækkandi eftir því sem líður á samningstímann með áframhaldandi vexti í neyslu á þessum vörum, meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna.

Samkeppni af þessu tagi er holl fyrir innlenda búvöruframleiðslu og hvetur landbúnaðinn til að leita leiða til hagræðingar og vöruþróunar. Slíka hvatningu hefur hann ekki ef hann nýtur nánast algerrar tollverndar. Tollkvótarnir eru hins vegar ekki af þeirri stærðargráðu að ætla megi að greinin ráði ekki við samkeppnina. Rifja má upp að engar aðrar innlendar framleiðslugreinar njóta tollverndar lengur, eftir að tollar á öllum vörum öðrum en búvörum voru felldir niður.

  1. Nauðsynlegt er að segja upp samningnum vegna brostinna forsendna. Stærsta og besta markaðssvæði Íslands hverfur úr samningnum vegna úrsagnar Bretlands úr ESB. Tollkvóti fyrir skyr var t.d. hugsaður fyrir Bretlandsmarkað.

Hér virðist gæta misskilnings hjá flutningsmönnum. Tollkvóti Evrópusambandsins er ekki bundinn við einstök aðildarríki, heldur gildir fyrir sambandið í heild. Á heimasíðu Mjólkursamsölunnar, sem er langstærsti útflytjandi skyrs, kemur fram að fyrirtækið hafi á undanförnum árum einbeitt sér að uppbyggingu markaða á Norðurlöndunum og flutt út eins og tollfrjáls kvóti ESB leyfir. Miðað við þá gífurlegu aukningu á eftirspurn eftir skyri sem orðið hefur á Evrópumarkaði undanfarin ár virðist engin ástæða til að hafa áhyggjur af að tollkvótinn nýtist ekki.

Að lokum
Af framansögðu má ljóst vera að Félag atvinnurekenda mælir ekki með því að þingsályktunartillagan verði samþykkt. Félagið tekur undir með Gunnari Braga Sveinssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem sagði eftir að samningurinn hafði verið undirritaður: „Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast.“

Umsögn FA í heild

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning