Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Morgunblaðinu 16. ágúst 2025.
Erna Bjarnadóttir talsmaður Mjólkursamsölunnar skrifar í Morgunblaðið sl. fimmtudag og sakar Félag atvinnurekenda um tvískinnung: „Það vekur athygli að talsmaður FA, sem jafnan talar fyrir opnum mörkuðum og óheftum alþjóðaviðskiptum, skuli nú ásaka Mjólkursamsöluna (MS) um að treysta sér ekki í alþjóðlega samkeppni á alþjóðavettvangi. MS starfar innan þröngs lagaramma samkvæmt búvörulögum nr. 99/1993, sem byggjast á opinberri stefnu um að tryggja að innlend framleiðsla mjólkur sé í samræmi við innanlandsþarfir. Sama FA brást hins vegar harkalega við þegar þýska stórfyrirtækið Heinemann, sem sérhæfir sig m.a. í alþjóðlegum rekstri verslana á flugvöllum, vann útboð um rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Þá var hinn frjálsi markaður og hin alþjóðlega samkeppni ekki lengur jafn eftirsóknarverð.“
Tvenns konar misskilningur
Hér hefur Erna misskilið ýmislegt eins og venjulega. Þegar talsmenn FA segja að Mjólkursamalan treysti sér ekki í alþjóðlega samkeppni, er átt við þann þrýsting sem fyrirtækið hefur sett á stjórnvöld að tollflokka innfluttan pitsuost ranglega, þannig að hann beri háa verndartolla, í andstöðu við ákvæði EES-samningsins, og innflutningur ógni þar af leiðandi ekki yfirburðastöðu MS á markaðnum fyrir rifinn ost á Íslandi. Sá þrýstingur er vel skjalfestur og fer ekkert á milli mála.
Hitt atriðið sem Erna misskilur er afstaða FA til útboðs á rekstri fríhafnarverzlunar á Keflavíkurflugvelli. FA gerir engar athugasemdir við að erlendum fyrirtækjum sé með útboðum gert kleift að starfa á Íslandi. Það sem FA hefur hins vegar gagnrýnt er að íslenzka ríkið skyldi með útboðinu færa þýzka fyrirtækinu Heinemann annars vegar einokunarstöðu (varðandi sölu áfengis og tóbaks) og hins vegar ráðandi stöðu á markaðnum fyrir fríhafnarverzlun, án þess að gera neinar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að sú staða yrði misnotuð. Þvert á móti heldur ríkið því fram að vöruvalsreglurnar, sem Fríhöfninni voru settar að kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA til að tryggja jafnræði birgja, eigi ekki við um Heinemann af því að einokunin hafi verið einkavædd. Sömuleiðis kemst Heinemann upp með að þvinga litla og meðalstóra innlenda framleiðendur til að ganga að afarkostum um að lækka verð sitt þannig að Heinemann fái í sinn hlut 60-70% framlegð af vörum þeirra. Það eru kjör sem ekki þekkjast á samkeppnismarkaði. Þannig var framlegð smásöluverzlana Haga 22,8% á síðasta rekstrarári svo dæmi sé tekið.
Vill Heinemann forðast örlög MS?
Það er kannski ekki við því að búast að í höfuðstöðvum MS skilji fólk nákvæmlega hvað við er átt, jafnilla og fyrirtækinu hefur gengið að fóta sig í samkeppnismálum. Mjólkursamsalan var fyrir fjórum árum dæmd í Hæstarétti vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu. MS var dæmd til að greiða 480 milljóna króna sekt, sem Samkeppniseftirlitið hafði lagt á fyrirtækið, annars vegar vegna samkeppnisbrotanna sjálfra og hins vegar vegna þess að MS leyndi lykilgögnum í málinu við rannsókn Samkeppniseftirlitsins. Þegar sektin var lögð á, missti þáverandi forstjóri MS það út úr sér að sektargreiðslan myndi bara koma úr vösum neytenda. Slíkt geta þeir einmitt leyft sér að segja sem eru í markaðsráðandi stöðu; fyrirtæki í virkri samkeppni geta það ekki.
Það vill síðan svo skemmtilega til að í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins var líka viðtal við Hönnu Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra vörusviðs Íslands Duty Free, eins og Heinemann kallar Fríhöfnina núna. Hún boðar endurhönnun verzlana fyrirtækisins (með ísjökum og alls konar) og bætir við að meginmarkmið Heinemann sé að „efla íslensk fyrirtæki og íslenska framleiðslu.“ „Ég sé gífurleg tækifæri fyrir íslenska framleiðendur og það getur opnað heiminn fyrir þá að komast inn í Heinemann-verslanirnar. Við höfum átt í góðu samstarfi við íslenska framleiðendur, sem við viljum efla enn frekar,“ segir Hanna í viðtalinu.
Þetta passar nú ekki alveg við þá reynslu, sem litlir íslenskir framleiðendur hafa hingað til af samskiptum við Heinemann. En kannski eru viðskiptahættirnir á leið til betri vegar og kannski vill Heinemann forðast þau örlög MS að verða uppvís að misnotkun markaðsráðandi stöðu. Til þess þarf hins vegar fleira en ísjaka í fríhöfninni og falleg orð. Innlendir framleiðendur þurfa að sjá einhverjar vísbendingar um að það sé ekki ætlunin að pína þá til að ganga að afarkostum sem myndu hvergi viðgangast í eðlilegu samkeppnisumhverfi og að birgjar Heinemann njóti jafnræðis.