MS mismunar innlendum matvælaiðnaði

05.03.2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á frettabladid.is, 5. mars 2021.

Undanrennu- og mjólkurduft er notað í ýmsar vörur innlendra matvælaframleiðenda, t.d. unnar kjötvörur, súkkulaði, kex, ís og osta. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Innlend matvælaframleiðsla nýtur almennt velvildar íslenzkra neytenda og flestir eru sammála um að búa eigi matvælafyrirtækjum þannig rekstrarumhverfi að þau séu í stakk búin að taka þátt í frjálsri samkeppni, jafnt á innlendum sem alþjóðlegum markaði. Svo eru reyndar sumir þeirrar skoðunar að innlend framleiðsla eigi að njóta verndar fyrir samkeppni, t.d. með háum tollum og undanþágum frá samkeppnislögum. Það er raunin í tilviki landbúnaðarins og tengdra framleiðslugreina. Hin óheppilega afleiðing þess er að þannig er öðrum innlendum matvælaiðnaði mismunað og torveldað að verða samkeppnisfær. Rekjum lýsandi dæmi um slíkt.

Einokun og gengistryggð tollvernd
Mjólkursamsalan (MS) og tengd fyrirtæki hafa í raun einokunarstöðu á íslenzkum mjólkurvörumarkaði, í krafti undanþágu frá samkeppnislögum sem hefur heimilað afurðastöðvum að sameinast og vinna saman, án atbeina samkeppnisyfirvalda.  Mjólkuriðnaðurinn nýtur ríkrar tollverndar; mjög háir tollar eru lagðir á innfluttar mjólkurvörur fyrir utan takmarkað magn sem má flytja inn á lægri tollum eða tollfrjálst samkvæmt alþjóðlegum samningum.

Mjólkur- og undanrennuduft er ein afurð mjólkurframleiðslu. Það er notað í margs konar vörur, m.a. sælgæti, ís, kex og kökur og unnar kjötvörur. Í krafti einokunarstöðu sinnar er Mjólkursamsalan eini seljandi mjólkur- og undanrennudufts á Íslandi. Hún hefur enga innlenda samkeppni. Í skjóli tollverndarinnar eiga önnur innlend matvælafyrirtæki, sem nota mjólkurduft í framleiðslu sína, í raun ekki annan kost en að kaupa vörurnar af MS og hún hefur því enga erlenda samkeppni heldur. Í búvörusamningi stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði nautgriparæktar, sem var undirritaður í febrúar 2016, var samið um að stjórnvöld myndu hækka tolla á innfluttu mjólkurdufti duglega og þeir tækju síðan árlegum hækkunum til samræmis við gengisþróun. Það er einsdæmi í seinni tíð að atvinnugrein hafi samið þannig við stjórnvöld um að hækka skattana á keppinautum sínum.

Verðið þrefaldast vegna tolla
Tollarnir á innflutt mjólkur- og undanrennuduft eru því ekkert smáræði, 30% verðtollur auk 649-810 króna magntolls á hvert kíló. Þetta þýðir að t.d. innflutt undanrennuduft, þar sem innflutningsverðið er 340 krónur, tekur 102 króna verðtoll og 649 króna magntoll, samtals 751 krónu, og ríflega þrefaldast í verði, endar í 1.091 krónu. Heimsmarkaðsverðið á nýmjólkurdufti er á bilinu 416-429 krónur og á undanrennudufti 326-364 krónur, miðað við tölur frá því seint á síðasta ári.

Erlend fyrirtæki fá lægra verð
Mjólkursamsalan selur hins vegar öðrum matvælafyrirtækjum nýmjólkurduft á 623 krónur kílóið og undanrennuduft á 608 krónur, miklu hærra verði en heimsmarkaðsverði. En hér kemur það áhugaverða í málinu; þetta verð á bara við ef viðskiptavinur MS er íslenzkt matvælafyrirtæki. Matvælafyrirtæki í öðrum löndum fá verð sem er nálægt heimsmarkaðsverðinu. Samkvæmt tölum Hagstofunnar seldi MS þannig yfir 500 tonn af undanrennudufti úr landi á síðasta ári á meðalverðinu 333 og 345 krónur á kíló (mismunandi eftir fituinnihaldi).

Mjólkursamsalan mun bera fyrir sig að verðlagsnefnd búvara ákveði opinbert heildsöluverð á mjólkur- og undanrennudufti og fyrirtækið geti ekki vikið frá því. Verðið á útflutta mjólkurduftinu sýnir hins vegar að MS telur sig ekki bundna af opinbera verðinu. Verðlagsnefndin hefur heldur enga lagaheimild til að ákveða verð á mjólkur- og undanrennudufti og fundargerðir hennar sýna að hún telur það sér í sjálfsvald sett hvort hún ákveður verð á mjólkurdufti eða ekki.

Skekkt samkeppnisstaða
Hér er því uppi sú staða að fyrirtæki, sem nýtur einokunarstöðu á mjólkurmarkaðnum í krafti undanþágu frá samkeppnislögum og getur rukkað það verð sem því sýnist fyrir mikilvæg aðföng til matvælaframleiðslu í skjóli tollverndar, mismunar innlendum og erlendum matvælafyrirtækjum gróflega. Innlendir viðskiptavinir greiða í raun niður það verð sem erlendir kaupendur mjólkurdufts frá MS fá.

Með þessu eru innlend matvælafyrirtæki sett í óþolandi stöðu. Hærri hráefniskostnaður hækkar að sjálfsögðu verðið sem neytendur greiða fyrir vörur þeirra. Erlendir keppinautar þeirra hafa aðgang að hráefni á heimsmarkaðsverði, sem er miklu lægra en verðið sem MS þvingar íslenzku fyrirtækin til að borga. Þetta skekkir samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda á alþjóðlegum markaði og ekki síður á íslenzkum matvælamarkaði. Innlendir matvælaframleiðendur eru í samkeppni við erlenda keppinauta sem geta keypt mjólkurduft af MS á lága verðinu og framleitt úr því vörur sem þeir selja svo til Íslands á lágum eða engum tollum. Þegar Alþingi samþykkti að hækka duglega tollana á mjólkurdufti var nýlega frágenginn tollasamningur Íslands og ESB, þar sem tollar á ýmsum vörum sem innihalda mjólkur- og undanrennuduft, eins og ís, súkkulaði og kexi, voru lækkaðir eða felldir niður.

Þannig er ljóst að verndarstefna í kringum íslenzkan landbúnað skaðar samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu. Það er raunverulega fyrirtækjum til tjóns að framleiða kex og sælgæti á Íslandi – þau væru betur sett í einhverju af löndunum sem MS selur hráefni til á heimsmarkaðsverði. Það verður að velta því upp hvort vilji sé til að fórna samkeppnishæfni iðngreina sem keppa við tollalausan innflutning til að bæta að óþörfu stöðu þeirra sem vilja okra á íslenzku mjólkurdufti.

Hvað ætla stjórnvöld að gera?

Eins og stundum áður þegar hagsmunir tengdir landbúnaðinum eiga í hlut, virðast stjórnmálamenn láta sér standa á sama um þessa stöðu. Árið 2006 hvatti Samkeppniseftirlitið stjórnvöld til að afnema innflutningshömlur á mjólkurdufti, þannig að matvælafyrirtækjum væri fært að kaupa það á samkeppnishæfu verði. Einu viðbrögðin við því voru áðurnefndur samningur ríkisstjórnarinnar og bænda tíu árum síðar um að bæta duglega í innflutningshömlurnar.

Stjórnmálamenn hljóta samt að þurfa að svara fyrir þá stöðu sem viðgengst í skjóli undanþágu frá samkeppnislögum og tollverndar, enda er hvort tveggja á þeirra ábyrgð. Ætla þeir bara að þegja við því að matvælafyrirtækjum sé mismunað með þessum ósvífna hætti, á kostnað innlendrar matvælaframleiðslu og íslenzkra neytenda?

Grein Ólafs á frettabladid.is
Umfjöllun Fréttablaðsins
Umfjöllun Stöðvar 2
Umfjöllun Vísis

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning