Mun minni matarverðshækkanir en í nágrannalöndum

19.10.2022

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda benti á það í viðtali við hádegisfréttir Bylgjunnar í dag að matvöruverð á Íslandi hefði hækkað mun minna það sem af er ári en í ríkjum Evrópusambandsins og langt innan við það sem það hefur hækkað t.d. í hinum norrænu ríkjunum.

Hækkanir á matarverði í Evrópu, sem Ólafur vísaði til í viðtalinu. Eingöngu í Sviss hafa matvörur hækkað minna í verði en á Íslandi.

Í Bylgjufréttum í gær vísaði verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ til lækkana á alþjóðlegri vísitölu hrávörðuverðs og gagnrýndi að hún hefði ekki skilað sér í lægra matvöruverði á Íslandi.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA sagði í viðtalinu við Bylgjuna að það væri gott að Alþýðusambandið væri á vaktinni og fylgdist með verðlagningu, enda hefðu allir gott af aðhaldi. Hins vegar þyrfti að horfa til fleiri þátta en hrávöruverðs. Þannig hefðu hækkanir á verði orku, flutninga og umbúða í Evrópu valdið verðhækkunum hjá birgjum íslenskra innflutningsfyrirtækja. Ólafur sagðist heyra á félagsmönnum FA að farið væri að hægja á gífurlegum verðhækkunum frá birgjum, en lítið farið að sjást af verðlækkunum.

„Það er hins vegar afskaplega ánægjulegt þegar maður horfir á verðþróun matvæla í Evrópu á árinu og eftir að þetta stríð [Rússa í Úkraínu] byrjaði er að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum tíu og hálfs prósents hækkun á matvælum en á Íslandi er það bara fimm og hálft prósent. Það er miklu minna heldur en til dæmis í hinum norrænu ríkjunum og það er árangur sem ég held að við getum verið nokkuð ánægð með í erfiðri stöðu.“

Ólafur sagðist sammála því að verðstöðugleiki væri gríðarlega stórt lífskjaramál. „Ég held að það þurfi að horfa á það bæði í þessum kjarasamningum sem við erum að fara inn í að þar verði ekki teknar einhverjar ákvarðanir sem ýta undir verðbólguna í stað þess að reyna að dempa hana og ég held að stjórnvöld þurfi líka að gera sitt, við höfum verið satt að segja verið mjög hissa á því hvað við fáum litla hlustun á okkar tillögur um alls konar breytingar á tollum og gjöldum sem gætu virkilega stuðlað að því að lækka verð á nauðsynjum.“

Viðtalið við Ólaf í heild á Vísi

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning