Myndamóment eða stuðningur í verki?

13.04.2023

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 13. apríl 2023

Alþingi samþykkti í júní í fyrra að fella niður alla tolla á vörum frá Úkraínu í eitt ár, þ.e. til 31. maí næstkomandi. Frumvarp um þetta flutti fjármálaráðherrann og sagði í greinargerð þess að markmiðið væri að „Ísland sýni stuðning sinn við Úkraínu í verki og geri nauðsynlegar breytingar á lögum í þeim tilgangi að greiða fyrir viðskiptum á þeim erfiðu tímum sem ríkið gengur í gegnum. Einnig er vert að hafa í huga að hér fetar Ísland í fótspor Evrópusambandsins og Bretlands sem þegar hafa orðið við beiðni Úkraínu.“

Við höfum séð dæmi þess í verzlunum undanfarið að með þessari gjörð sló Alþingi tvær flugur í einu höggi; studdi við úkraínskt viðskiptalíf og stuðlaði að lækkun matarverðs fyrir íslenzka neytendur. Kjúklingabringur innfluttar frá Úkraínu kosta u.þ.b. 50% minna en íslenzkar bringur.

Bændasamtök Íslands voru eini umsagnaraðilinn sem lagðist gegn frumvarpinu á sínum tíma, stórmannlegt eins og það verður að teljast. Hagsmunaaðilar í landbúnaði hafa síðan reynt að fá opinberar stofnanir til að þvælast fyrir innflutningi á tollfrjálsum úkraínskum búvörum með skriffinnsku og liggja nú í ráðherrum og þingmönnum stjórnarflokkanna að endurnýja ekki bráðabirgðaákvæðið í tollalögum sem senn rennur sitt skeið.

Flest bendir til að Evrópusambandið og Bretland muni endurnýja sinn stuðning við Úkraínu í formi tollfrelsis fyrir útflutningsvörur þessa stríðshrjáða lands. Ætlar Ísland að sitja eftir vegna þrýstings frá sérhagsmunaöflum?

Mun t.d. forsætisráðherranum og utanríkisráðherranum líða vel að sitja fyrir á fleiri myndum með úkraínskum ráðamönnum ef flokkar þeirra hafa hafnað því að sýna áfram þann stuðning í verki, sem Úkraínumenn báðu um?

Þetta ætti ekki að verða erfið ákvörðun.

Nýjar fréttir

19. nóvember 2024

Innskráning