Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 7. júní 2021.
Tvö ár í röð hefur menntamálaráðuneytið varið hundruðum milljóna króna til sumarnáms í framhalds- og háskólum landsins. Verulegur hluti þeirra fjármuna rennur til námskeiðahalds á vegum endur- og símenntunarstofnana háskólanna, sem bjóða upp á námskeið í beinni samkeppni við námsframboð einkarekinna fræðslufyrirtækja. Námskeið, sem áður kostuðu tugi þúsunda, hafa verið boðin á 3.000 krónur. Það geta einkarekin fræðslufyrirtæki engan veginn keppt við og hafa misst veruleg viðskipti vegna þessarar niðurgreiddu samkeppni á vegum ríkisins. Fræðslufyrirtæki hafa orðið fyrir tvöföldu áfalli í heimsfaraldrinum; fyrst bitnuðu samkomutakmarkanir hart á rekstrinum, svo efndi ríkið til samkeppni við þau.
Félag atvinnurekenda hefur lýst skilningi á því að komið sé til móts við nemendur háskóla og atvinnuleitendur með sumarnámi. Félagið hefur hins vegar andmælt harðlega niðurgreiðslu á samkeppnisrekstri endurmenntunardeildanna og krafið menntamálaráðherra svara um málið. Hinn 17. maí síðastliðinn sendi Samkeppniseftirlitið menntamálaráðuneytinu bréf, í framhaldi af kvörtun FA, og mæltist til þess að ráðuneytið legði fyrirfram mat á samkeppnisleg áhrif ráðstafana eins og niðurgreiðslu á sumarnáminu. Sama dag ítrekaði FA erindi sitt til menntamálaráðherra, sem sent var 13. apríl. Svarið barst nú um mánaðamótin og má lesa það á vef FA.
Sir Humphrey svarar
FA spurði ráðuneytið einmitt hvort það hefði lagt mat á áhrif fyrirkomulags ríkisstyrkjanna á samkeppni á fræðslumarkaði. Svar ráðuneytisins gæti hafa verið samið af Sir Humphrey, ráðuneytisstjóranum útsmogna í brezku gamanþáttunum Já ráðherra, en hann var sérfræðingur í að þvæla mál með merkingarlausu skriffinnskutuði. Í svarinu segir þannig:
„Eitt af skilgreiningaratriðum hugtaksins ríkisaðstoð er að hún getur aðeins verið veitt aðilum sem selja vöru eða þjónustu á markaði, þ.e. sinna efnahagslegri starfsemi. Af hálfu stjórnvalda er lagt er [svo] til grundvallar að starfsemi háskóla, þar á meðal umrædd námsúrræði, falli undir almannaþjónustu sem er ekki af efnahagslegum toga og fjárveitingar til þeirra geta þannig ekki falið í sér ríkisaðstoð.“
Þetta er makalaust bull. Endurmenntunardeildir háskólanna – sem óumdeilt er að fengu einhverja tugi milljóna af því fé sem rann til háskólanna vegna sumarnámsins – selja einmitt þjónustu á markaði, þ.e. námskeið fyrir almenning eins og þau sem nú eru auglýst á 3.000 krónur, í beinni samkeppni við sambærileg námskeið hjá einkareknum fræðslufyrirtækjum. Sá sem ekki áttar sig á að í niðurgreiðslum á slíkri starfsemi felst inngrip í fræðslumarkaðinn er reyndar ekki líklegur til að skilja bréfið frá Samkeppniseftirlitinu.
Enginn misskilningur
Ráðuneytið heldur áfram og segir Félag atvinnurekenda haldið þeim misskilningi að sumarnámskeiðunum sé aðallega beint að almenningi, en staðreyndin sé að 80% nemenda í sumarnáminu í fyrra hafi verið innritaðir í einingabært nám. FA hefur ekki misskilið neitt. Það eru 20 prósentin sem út af standa sem gagnrýni félagsins beinist að, fólkið sem fór (eðlilega) frekar á námskeið fyrir almenning, niðurgreitt af ríkinu, en að sækja þjónustuna til fyrirtækjanna sem endurmenntunarstofnanirnar keppa við.
Ráðuneytið telur sig ekki geta svarað spurningu FA um hversu mikið af fjármununum rann til endurmenntunarstofnana háskólanna. Þó er vitað að a.m.k. sumir skólarnir hafa veitt ráðuneytisfólki upplýsingar um það. Þannig fékk t.d. Endurmenntun Háskóla Íslands 22,5 milljónir króna sumarið 2020 af því fé sem rann til HÍ. Ráðuneytið getur heldur ekki svarað því hvernig niðurgreiðslur skiptust á nemendahópa, þ.e. nemendur skólanna, atvinnuleitendur eða fólk sem féll undir hvorugan fyrrnefnda hópinn. Almennt virðist ráðuneytið hafa afskaplega litlar upplýsingar um það hvernig skólarnir vörðu fé skattgreiðenda, sem er umhugsunarefni út af fyrir sig.
Ekki of seint að leita lausna
Ráðuneytið reynir þannig að þæfa málið með annars vegar augljósum útúrsnúningum og hins vegar með því að afla ekki þeirra upplýsinga sem FA fór fram á.
Við Lilju Dögg Alfreðsdóttur menntamálaráðherra leyfi ég mér að segja: Nei ráðherra, það er ekki svona sem hið opinbera svarar fyrirtækjum sem hafa mátt una því í miðri kórónuveirukreppu að ríkið fer í niðurgreidda samkeppni við þau. Það er enn ekki of seint að leita lausna til að rétta samkeppnisstöðu einkarekinna fræðslufyrirtækja. FA og aðildarfyrirtæki þess hafa margoft lýst sig reiðubúin í það samtal og eru það áfram.
Svarbréf menntamálaráðuneytisins 26. maí 2021 við erindi FA frá 13. apríl