Neytendaupplýsingar í appi eru framtíðin

13.03.2021

Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um að heimilt sé að miðla lögbundnum upplýsingum um matvörur til neytenda með stafrænum hætti. Þetta er stór áfangi í áralangri baráttu FA fyrir að innflutningsfyrirtæki losni við kostnað vegna endurmerkinga á matvörum frá Bandaríkjunum og fleiri ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Framtíðin er að neytendur geti, með appi í símanum sínum, fengið miklu meiri og betri upplýsingar um matvörur en í dag er að finna á umbúðum þeirra.

Endurmerkt matvara frá Bandaríkjunum

Lausn eftir 25 ára baráttu
Á Íslandi gilda reglur Evrópusambandsins um merkingar á umbúðum matvöru, sem teknar hafa verið upp í gegnum EES-samninginn. Reglur um vörumerkingar t.d. í Bandaríkjunum eru ólíkar þeim evrópsku; innihaldsefni og næringargildi er þannig gefið upp á skammt („per serving“) en í EES-reglunum er miðað við 100 g eða 100 ml. Þetta hefur þýtt að endurmerkja þarf allar vörur frá Bandaríkjunum, Kanada og fleiri löndum með límmiðum sem eykur kostnað og hækkar vöruverð. FA hefur barist fyrir því í aldarfjórðung, eða frá því um það leyti sem EES-samningurinn tók gildi, að finna lausn á þessu máli, sem verður að teljast tæknileg viðskiptahindrun. Nú hillir loksins undir það, með hagnýtingu stafrænnar tækni.

Hægt að leysa úr vandkvæðum vegna Brexit
Á umbúðum matvöru þarf að tilgreina ábyrgðaraðila á Evrópska efnahagssvæðinu ef einhver vandamál skyldu koma upp varðandi vöruna og eru þær reglur í þágu neytendaverndar. Eftir að Bretland gekk úr ESB og þar með EES þurfa breskir matvælaútflytjendur að breyta merkingum á umbúðum hjá sér. Ef þeir gera það ekki þarf að endurmerkja vörur sem fluttar eru út til EES-ríkja. FA hefur í viðræðum við stjórnvöld lagt áherslu á að nýjar stafrænar lausnir verði fremur notaðar til þess að leysa úr þeim málum en gamla límmiðalausnin.

Hjá neytendum er vaxandi krafa um auknar upplýsingar um vörur, t.d. upprunaland, rekjanleika, ofnæmisvalda, umhverfis- og gæðavottanir o.s.frv. Það er hins vegar takmarkað hversu miklum upplýsingum er hægt að koma á umbúðir.

Stafrænar lausnir til að miðla neytendaupplýsingum
GS1 á Íslandi, fyrirtæki í eigu FA, Samtaka verslunar og þjónustu, Viðskiptaráðs, Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra samvinnufélaga, rekur svokallaða Gagnalaug GS1, þar sem hægt er að geyma allar upplýsingar sem til eru um viðkomandi vörur. Hægt er að sækja upplýsingarnar í Gagnalaugina og miðla þeim til neytenda með eftirfarandi hætti:

  1. Myndavélar snjallsíma geta lesið QR-kóða eða strikamerki á hillumerkingu/vörustandi. Kóðinn vísar á vefslóð með upplýsingum. Þessi möguleiki er þegar fyrir hendi fyrir ýmsar vörur.
  2. App í snjalltæki les strikamerki vörunnar og sækir viðeigandi upplýsingar í Gagnalaugina. Notandinn getur forskráð t.d. ofnæmisvalda eða óæskileg innihaldsefni og stillt tungumál ef sá möguleiki er fyrir hendi. GS1 mun hefja þróun á slíku appi, nú þegar vilji stjórnvalda til að breyta reglum liggur fyrir.
  3. Skannar í verslunum, svipaðir núverandi verðskönnum, lesa strikamerki og birta upplýsingarnar á skjá. Þessi lausn getur hentað þeim 10% landsmanna sem eiga ekki snjallsíma, en í reglugerðardrögunum er áskilið að búnaður til að lesa upplýsingarnar sé á sölustöðum.

Samþykkt ríkisstjórnar hrint í framkvæmd
FA og ýmis ofangreind samtök hafa unnið að því undanfarin misseri að kynna möguleika þessara stafrænu lausna fyrir stjórnvöldum. Ríkisstjórnin samþykkti í ágúst síðastliðnum að tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að stefna að því að heimilt yrði að veita neytendum upplýsingar um matvörur með þessum stafræna hætti og sú vinna hefur nú borið ávöxt með reglugerðardrögunum. Í september síðastliðnum skilaði starfshópur síðarnefnda ráðherrans, þar sem FA átti m.a. fulltrúa, skýrslu um bættar merkingar matvæla, þar sem áhersla var lögð á nýtingu stafrænna lausna.

Nær mörgum jákvæðum markmiðum
„Með því að fyrirtæki í matvælageiranum miðli upplýsingum um vörur með stafrænum hætti er hægt að ná mörgum markmiðum og ná fram miklum ávinningi,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Stafrænar lausnir ættu að draga úr kostnaði við endurmerkingar á innfluttum vörum, eyða hindrunum í milliríkjaviðskiptum, mæta kröfum neytenda um auknar upplýsingar um matvörur og auka þægindi þeirra með möguleikum á notendaviðmóti sem er lagað að einstaklingsþörfum.“

FA efnir í næstu viku til félagsfundar um stafræna byltingu í vöruupplýsingum, þar sem farið verður nánar ofan í saumana á málinu með aðildarfyrirtækjum félagsins.

Nýjar fréttir

Innskráning