Neytendur halda uppi óhagkvæmri búgrein

10.12.2014

 „Ef svínaræktin getur ekki keppt við innflutning á tíu prósentum af innanlandsneyslu, á 30 til 40 prósenta tolli, þá er bara alveg eins gott að hætta þessu. Þá skulum við bara flytja þetta inn,“ sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í viðtali á Bylgjunni í morgun.

 

Undanfarna daga hafa svínabændur krafist þess að innflutningshömlur á svínakjöti verði hertar á ný og telja að svínaræktin gæti liðið undir lok vegna samkeppni við innflutning. Ólafur benti á að innflutningurinn væri til kominn vegna skorts á svínasíðum, sem notaðar eru til að framleiða beikon. Landbúnaðarráðherra væri lögum samkvæmt skylt að gefa út innflutningskvóta á lægri tolli ef skortur væri á búvöru á innanlandsmarkaði. Innflutningur á svínakjöti hefur farið vaxandi undanfarin þrjú ár en nemur þó ekki nema um tíu prósentum af innanlandsneyzlu.

Hins vegar er opni tollkvótinn á svínasíðum alls ekki tollfrjáls. Ríkið leggur um 200 króna toll á hvert kíló, sem er 30-40% af algengu innkaupsverði á kjötinu.

 

„Stóra spurningin er, þegar menn segja: við getum ekki keppt við innflutning þótt hann sé pínulítill og á háum tollum, á að standa í þessu? Á að láta neytendur borga til að halda uppi atvinnugrein sem í rauninni óhagkvæm og stenst ekki alþjóðlega samkeppni?“ sagði Ólafur.

 

Hann benti á að þau rök sem hafa verið nefnd fyrir tollvernd innlendrar búvöruframleiðslu; að Ísland sé harðbýlt, vaxtartími stuttur og ekki hægt að hafa skepnur á beit nema part úr ári, ættu ekki við um svína- eða alifuglarækt, sem væri stunduð innandyra, í stórum skemmum, og að stærstum hluta með innfluttu fóðri.

 

Viðtal við Ólaf Stephensen á Bylgjunni.

 

Sjónvarpsfrétt RÚV um málið

Nýjar fréttir

Innskráning