Félag atvinnurekenda hefur sent umboðsmanni Alþingis beiðni um að embættið hefji frumkvæðisrannsókn á stjórnsýslu eftirlitsstofnana vegna pakkagjaldskrár Íslandspósts, sem var í gildi frá ársbyrjun 2020 til 1. nóvember síðastliðins. Að mati félagsins var gjaldskráin ólögmæt, enda gekk hún gegn skýru ákvæði póstlaganna um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli miða við raunkostnað við að veita þjónustu, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Gjaldskrá Póstins var hins vegar gróflega undirverðlögð.
Póst- og fjarskiptastofnun úrskurðaði fyrirtækinu á annað hundrað milljóna króna í styrk frá skattgreiðendum vegna undirverðlagningarinnar og lýsti því að sögn yfir við samgönguráðuneytið að lagaákvæðið um raunkostnað væri ekki að fullu virkt. Byggðastofnun, sem tók við eftirliti með póstmálum í nóvember síðastliðnum, tekur undir þessa túlkun PFS. Að mati FA eru stjórnsýslustofnanir ekki þess umkomnar að lýsa lög óvirk og grafa yfirlýsingar sem þessar með ósvífnum hætti undan grundvallarreglu stjórnskipunarréttarins um þrískiptingu ríkisvaldsins.
Undirverðlagning gróf undan rekstri keppinauta
Hin undirverðlagða gjaldskrá Póstsins gróf undan samkeppnisstöðu póst- og vörudreifingarfyrirtækja, sem rekin eru víða um land. Hún var tekin upp eftir að Alþingi bætti í póstlögin ákvæði um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skyldi vera sú sama um allt land. Pósturinn lækkaði þá verð fyrir pakkadreifingu á öllum svæðum niður í það verð sem gilti fyrir sendingar innan höfuðborgarsvæðisins. Í því felst skýr undirverðlagning. FA hefur áður kvartað undan stjórnsýslu Póst- og fjarskiptastofnunar, sem úrskurðaði ríkisfyrirtækinu hálfan milljarð af fé skattgreiðenda vegna ársins 2020, þar af 126 milljónir vegna hinnar ólögmætu gjaldskrár, og nefndi í ákvörðun sinni aldrei ákvæðið um raunkostnað.
Ráðuneytið vísar á PFS…
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lýsti því yfir í skriflegu svari, sem birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2021, að ráðuneytið teldi áðurnefnt lagaákvæði um að gjaldskrár taki mið af raunkostnaði „ekki að öllu leyti virkt“. FA gerði í erindi til ráðuneytisins athugasemdir við þessa afstöðu og benti á að það væri ekki á valdi ráðuneytisins að úrskurða lög virk eða óvirk. Í svarbréfi, sem FA barst í lok mars, sagði: „Þegar ráðuneytinu barst fyrirspurn frá Morgunblaðinu á dögunum, óskaði ráðuneytið eftir efnivið frá stofnuninni [PFS] til að geta svarað spurningum blaðsins. Ef svar ráðuneytisins til Morgunblaðsins er lesið í heild og samhengi kemur í ljós að ekki er um að ræða afstöðu ráðuneytisins til þess hvort 3. mgr. sé að öllu leyti virkt.“ Ráðuneytið gaf þannig til kynna að það væri afstaða PFS að lagaákvæðið væri óvirkt.
… og Byggðastofnun vísar á ráðuneytið
Í desember síðastliðnum birtist svo frétt í Morgunblaðinu þar sem haft var eftir Hjalta Árnasyni, yfirlögfræðingi Byggðastofnunar, að stofnunin hefði í undirbúningi að úrskurða Íslandspósti sambærilegt framlag úr sjóðum skattgreiðenda fyrir árið 2021 og fyrirtækið fékk 2020. Hjalti sagði að Byggðastofnun tæki undir túlkun PFS og ráðuneytisins varðandi óvirkni lagaákvæðisins um raunkostnað: „Þessu ákvæði [um sama verð um allt land] var breytt með lögum nr. 76/2021 en varð þess valdandi á meðan það var í gildi að ákvæði 3. mgr. sömu greinar var ekki fyllilega virkt eins og kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn ykkar [á Morgunblaðinu] í mars á þessu ári […] Byggðastofnun og Póst- og fjarskiptastofnun taka undir þetta sjónarmið ráðuneytisins,“ segir Hjalti.
Engin mótsögn í lögunum
FA bendir í erindi sínu til umboðsmanns á að engin mótsögn sé á milli ákvæðisins um sama verð um allt land og ákvæðisins um að gjaldskrár taki mið af raunkostnaði, sem geti valdið því að síðarnefna ákvæðið sé ekki virkt. „Í þessu sambandi er vert að taka fram að ákvæði þágildandi 2. og 3. mgr. 17. póstlaga eru ekki ósamræmanleg. Gjaldskrá fyrir bréfapóst innan alþjónustu er til að mynda sú sama um allt land og Íslandspóstur hefur ekki séð vandkvæði á að miða hana við raunkostnað,“ segir í erindi FA.
„Stjórnvöldum er ekki heimilt að ákveða upp á sitt einsdæmi að gildandi lagaákvæði sé óvirkt,“ segir í niðurlagi erindis FA til umboðsmanns. „Opinberar yfirlýsingar stjórnvalda um að þau telji lög óvirk grafa með ósvífnum hætti undan grundvallarreglu stjórnskipunarréttarins um þrískiptingu ríkisvaldsins. Ákvarðanir, byggðar á slíkum rangtúlkunum, brjóta gegn formreglu lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sem felur í sér að ákvarðanir stjórnvalda megi ekki vera í bága við lög.“
FA gætir hagsmuna fyrirtækja sem eru í beinni samkeppni við Íslandspóst og hefur umkvörtunarefnið því mikil áhrif á hagsmuni þeirra. Félagið fer því þess á leit við umboðsmann að hefja frumkvæðisathugun á framangreindri ákvörðun PFS nr. 1/2021 sem og yfirlýsingum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Byggðastofnunar.