„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 10. desember 2025.
Ríkisstjórnin hefur þá stefnu að einfalda regluverk atvinnulífsins. Það er góð stefna, sem margar ríkisstjórnir hafa haft á undan henni. Vandinn er að þeim hefur öllum mistekizt að hrinda henni í framkvæmd. Reglubyrði fyrirtækja þyngist stöðugt – lítið í einu, en grömmin safnast upp og verða að aukakílóum og stundum þungum byrðum. Sumt regluverkið kemur frá Brussel. Annað eru heimasmíðaðar reglur sem er klínt utan á EES-reglurnar, gullhúðunin svokallaða. Þriðja sortin af aukinni reglubyrði eru svo alíslenzkar reglur, sem flækja starfsumhverfi fyrirtækja og koma niður á samkeppnishæfni þeirra.
Nú er opinber stefna að segja skýrt frá því í lagafrumvörpum ef þau fela í sér gullhúðun á Evrópureglum. Ríkisstjórnin ætti sömuleiðis að taka upp þá vinnureglu að í öllum lagafrumvörpum sé lagt mat á hvort verið er að þyngja reglubyrði. Það er alltént grundvallaratriði að löggjafinn, Alþingi, viti hvað hann er að samþykkja og hafi opin augun fyrir því ef verið er að þyngja reglubyrði fyrirtækjanna.
Tökum nýlegt dæmi: Í greinargerð með frumvarpi um kílómetragjald er fjallað um kostnað af löggjöfinni, en þá eingöngu fyrir ríkisstofnanir sem gætu þurft að breyta kerfum hjá sér, t.d. Skattinn, Samgöngustofu og Fjársýsluna. Engin tilraun er gerð til að meta aukinn kostnað og umstang hjá t.d. bílaleigum, skoðunarstofum, tryggingafélögum og farmflytjendum, en öll þessi fyrirtæki þurfa að breyta kerfum sínum og standa stjórnvöldum skil á alls konar upplýsingum.
Alþingismenn samþykkja frumvörpin á færibandi án þess að hafa hugmynd um hvað þau þýða í raun fyrir regluverk atvinnulífsins. Eftir nokkur ár rjúka þeir svo sjálfsagt upp til handa og fóta þegar þeir lesa skýrslu um að reglubyrði íslenzkra fyrirtækja sé þeim fjötur um fót í alþjóðlegri samkeppni og spyrja hver beri eiginlega ábyrgðina.