Áramótagrein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Innherja á Vísi 27. desember 2021.
Lykilatriði í því að fyrirtækin nái viðspyrnu eftir kórónuveirukreppuna og okkur takist að tryggja stöðugleika og batnandi lífskjör á Íslandi á næstu árum er þróunin á vinnumarkaði. Ýmsir viðburðir ársins sem senn er á enda auka ekki bjartsýni um að þróunin á vinnumarkaðnum styðji undir framtíðarsókn til lífskjara – en það má lengi vona.
Hin endurnýjaða ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur það að markmiði, samkvæmt stjórnarsáttmálanum, að „tryggja gott samspil hagstjórnar og kjarasamninga og vinna þannig að því að bæta lífskjör.“ Vissulega er það svo að skynsamleg hagstjórn stjórnvalda kemur fyrir lítið, ef aðilar vinnumarkaðarins falla enn og aftur í þá gömlu gryfju að semja um launahækkanir, sem ekki reynist innistæða fyrir. Þá er afleiðingin líka fullkomlega fyrirsjáanleg og gamalkunn; verðbólga, vaxtahækkanir og gengissig.
Hinn duldi kostnaður við kjarasamninga hins opinbera
Það hefur hins vegar komið æ betur í ljós eftir því sem liðið hefur á árið, að ríkisstjórnin, ásamt sveitarfélögunum, stóð að gerð vitlausustu kjarasamninganna í síðustu samningalotu. Látið var í það skína að samningarnir væru bara á sömu nótum og lífskjarasamningurinn á almenna vinnumarkaðnum. Hvað varðar almennar launahækkanir virðist það svo sem hafa gengið eftir að mestu, þótt hækkun launavísitölu hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga hafi reyndar verið talsvert meiri en hjá starfsfólki á almennum vinnumarkaði. Stóri munurinn liggur í ákvæðum um vinnutímastyttingu, sem er mun rausnarlegri hjá hinu opinbera en á almenna markaðnum – og virðast ekki öll kurl komin til grafar.
Fjármálaráðherrann upplýsti á Alþingi í lok apríl að kostnaður við styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki í þjónustu ríkisins væri um 4,2 milljarðar króna og mönnunargatið sem verður til vegna styttingar vinnutímans væri 780 stöðugildi. Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar, sem kom fram rétt fyrir jól, kemur hins vegar fram það mat að kostnaðaraukinn á ársgrundvelli sé 5,4 milljarðar. „Endanleg kostnaðar- og hagræðingaráhrif af verkefninu eru enn óljós og skýrast ekki fyrr en seint á næsta ári. Af þeim sökum eru settar [í] varasjóð fjárheimildir til að mæta kostnaðinum,“ segir meirihluti fjárlaganefndar.
Áhrif síðustu kjarasamninga á fjárhag og rekstur sveitarfélaganna liggja ekki fyrir. Margt bendir til að þau verði enn meiri en hjá ríkinu og fjöldi sveitarfélaga horfist nú í augu við ófyrirséðan kostnað vegna styttingarinnar. Ýmis dæmi munu vera um að dagvinnufólk hjá sveitarfélögum fái allt að fjögurra tíma vinnustyttingu á viku en haldi engu að síður neyzluhléum – en afnám þeirra átti þó að vera forsenda styttingarinnar. Það er óhætt að segja að ólíku sé saman að jafna sé t.d. litið á síðustu samninga verzlunarfólks um 45 mínútna styttingu á viku.
Hið opinbera dregur vagninn
Formaður Sambands íslenzkra sveitarfélaga, Aldís Hafsteinsdóttir, virtist alls ekki þeirrar skoðunar, þegar hún setti fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í september, að sveitarfélögin hefðu gert góðan samning. Aukin launaútgjöld væru langt umfram tekjuaukningu vegna útsvars. Formaðurinn virðist hafa áttað sig á því (bara aðeins of seint) að hið opinbera eigi ekki að leiða launaþróun í landinu. „Þar á hinn almenni markaður að draga vagninn og þá sérstaklega hinar gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar. Hið opinbera á svo að fylgja í kjölfarið í sama takti. Það eru takmörk fyrir því hvað launakostnaður getur vaxið án þess að stórslys verði raunin,“ sagði bæjarstjórinn í Hveragerði.
Hverju orði sannara – en það er nú engu að síður staðreynd, að enn einu sinni dregur hið opinbera vagninn í launahækkunum. Þegar talsmenn ríkis og sveitarfélaga létu í það skína að þeir væru að gera samninga sem væru á sömu nótum og lífskjarasamningarnir töluðu þeir annaðhvort gegn betri vitund eða höfðu ekki hugmynd um hvað það kostaði, sem þeir sömdu um.
Forystumenn stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðnum eru svo að sjálfsögðu farnir að vísa í hækkanir opinberra starfsmanna og boða að gerðar verði kröfur um sambærilegar kjarabætur í næstu kjarasamningum. Þannig heldur höfrungahlaupið margumtalaða áfram og enginn lærir neitt af reynslunni.
Kaupmáttur eykst í kreppunni
Samkvæmt greiningu Íslandsbanka, sem birtist seint í nóvember, hafði kaupmáttur launa aukizt um 2,9% á 12 mánuðum, á sama tíma og verðbólga mældist með mesta móti eða 4,5% á því tímabili, og atvinnulífið var að rétta úr kútnum eftir einhverja dýpstu kreppu undanfarinna ára. Kaupmáttur launa hefur sjaldan verið meiri og hefur hækkað langmest hjá tekjulægri hópum. Það eru að sjálfsögðu góðar fréttir. Slæmu fréttirnar eru hins vegar að laun hafa hækkað miklu meira á Íslandi en í samkeppnislöndum okkar og gífurlegar hækkanir á launakostnaði reynast mörgum fyrirtækjum afar þungar í skauti, ekki sízt þeim sem hafa farið verst út úr kórónuveirukreppunni.
Það skýtur þess vegna óneitanlega skökku við að verkalýðshreyfingin hyggist sækja fast að fá greiddan svokallaðan hagvaxtarauka á næsta ári, vegna þess hagvaxtar sem varð til á árinu 2021 þegar atvinnulífið byrjaði að ná sér upp úr kórónuveirukreppunni. Myndin hér að neðan, sem fengin er úr nýjustu hagvaxtarspá Seðlabankans, sýnir vel hvað sú krafa er fráleit.
Sambandsleysi við efnahagslegan raunveruleika
Stór hluti verkalýðshreyfingarinnar virðist því miður í litlu sambandi við hinn efnahagslega raunveruleika, sem við blasir. Þannig hækkaði Seðlabankinn stýrivexti í nóvember, m.a. með vísan til mikilla launahækkana, sem stuðluðu að verðbólgu. Viðbrögð forystu ASÍ voru að boða meiri hörku í næstu kjaraviðræðum og meiri launahækkanir! Einu sinni vissi forysta ASÍ að innistæðulausar launahækkanir kölluðu á verðbólgu og vaxtahækkanir. Það er áhyggjuefni, ef það er liðin tíð.
Á hinum almenna vinnumarkaði þurfum við á nýju ári samtal atvinnurekenda og launþega, sem fer fram á svipuðum nótum og þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir fyrir rúmum 30 árum; um hóflegar launahækkanir sem taka mið af getu útflutningsgreina til að greiða laun og tryggja þannig stöðugleika og vaxandi kaupmátt. Árangurinn af þeim samningum er söguleg staðreynd, sem ekki er hægt að horfa framhjá.
Hið opinbera þarf að gera sitt til að finna á ný sæmilega skynsamlegt vinnumarkaðsmódel þar sem það er ekki sjálft í forystuhlutverki við að keyra upp launakostnað, heldur lagar sig að getu atvinnulífsins til að greiða laun. Ríkisvaldið getur lagt fleira af mörkum; eitt af stærstu viðfangsefnunum á næstu árum eru umbætur á húsnæðismarkaðnum, en verðhækkanir á þeim markaði, sem eru langt umfram það sem gerist í nágrannalöndunum, eru eitt af því sem hefur keyrt áfram óhóflegar launakröfur á vinnumarkaði. Segja má að fyrirtækin í landinu hafi verið að borga fyrir að ríkinu og sveitarfélögunum hafi mistekizt að búa til jafnvægi á húsnæðismarkaðnum.
Svo mikið er víst að „gott samspil hagstjórnar og kjarasamninga“ næst ekki nema allir þessir aðilar leggi mikið á sig og sýni mikla ábyrgð. Það væri gott áramótaheiti að leitast við að ná aftur viðlíka samstarfi og því sem þjóðarsáttarsamningarnir byggðust á.