Nýir tollkvótar lágt hlutfall innanlandsneyslu

21.09.2015

Innfluttir ostarAuknir tollkvótar fyrir búvörur, sem samið hefur verið um við Evrópusambandið, verða lágt hlutfall af innanlandsneyslu landbúnaðarvara, jafnvel þegar stækkun þeirra verður að fullu komin til framkvæmda árið 2020. „Þetta er ekki samkeppni sem drepur íslenskan landbúnað,“ sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í morgunþættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun. Hann og Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, lýstu þar mikilli ánægju með nýja samkomulagið með ESB.

Ólafur benti á að stækkaðir tollkvótar, sem auka samkeppni innfluttra vara við innlendan landbúnað, myndu stækka í áföngum á árunum 2016-2020. Árið 2020 yrðu þeir eftir sem áður lágt hlutfall af innanlandsneyslunni eins og hún var á árunum 2011-2013 og enn lægra hlutfall af neyslunni eins og gera má ráð fyrir að hún verði árið 2020. Neysla á flestum búvörum fer vaxandi, meðal annars vegna stóraukins ferðamannastraums. Hlutföll stækkaðs innflutningskvóta af neyslu á svínakjöti, nautakjöti, kjúklingakjöti og osti má sjá í meðfylgjandi töflu.

ESB tollkvótar nýir

Þótt bændum þyki nóg um stækkun tollkvótanna gera þeir í ýmsum tilvikum ekki meira en að anna núverandi eftirspurn innflutningsfyrirtækja eftir að fá að flytja inn búvörur án tolla, eins og einnig sést í töflunni.

Ólafur benti á að æskilegast væri að afnema eða lækka almenna tolla á búvörum; neytendur gætu verið vissir um að slíkar lækkanir skiluðu sér í buddu þeirra. Skömmtunarkerfi á borð við uppboð á tollkvótum þýddi að innflutningsfyrirtæki gætu neyðst til að bjóða háar fjárhæðir í kvótana, sem síðan þýddi að innfluttu vörurnar yrðu dýrari. Þannig ynni uppboð á kvótunum gegn markmiðum tollfrelsisins.

Viðtal við Ólaf Stephensen og Margréti Sanders á Bylgjunni

Leiðrétt: Villa er í töflunni með þessari frétt. Nýr tollkvóti fyrir osta, 380 tonn, er 6,6% af meðaltalsneyslu innanlands 2011-2013 en ekki 10,6%.

Nýjar fréttir

Innskráning