Nýr framkvæmdastjóri FA

01.10.2014

Ólafur Stephensen hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og hefur störf í dag, 1. október. Almar Guðmundsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri FA frá 2009, hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.

 
Ólafur Þ. Stephensen er 46 ára þriggja barna faðir. Hann lét fyrir rúmum mánuði af starfi ritstjóra Fréttablaðsins og annarra fréttamiðla 365. Áður var hann meðal annars ritstjóri Morgunblaðsins, ritstjóri 24 stunda og aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins. Ólafur starfaði einnig um skeið sem forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála hjá Símanum og sem forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs hjá Samtökum atvinnulífsins.
Ólafur lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og MSc-prófi í alþjóðasamskiptum frá London School of Economics and Political Science 1994. Þá lauk hann AMP-stjórnendanámi við IESE Business School í Barcelona árið 2010.

 
„Ég hlakka til að takast á við spennandi verkefni hjá Félagi atvinnurekenda,“ segir Ólafur. „Baráttumál félagsins á borð við frjálst viðskiptaumhverfi, sanngjarna samkeppni og opið hagkerfi falla prýðilega að þeim skoðunum sem ég hef talað fyrir á ýmsum vettvangi. FA á sóknarfæri í að efla enn þjónustu við aðildarfyrirtækin og fjölga í hópi þeirra.“
„Við hjá Félagi atvinnurekenda erum afar ánægð með að fá Ólaf Stephensen í lið með okkur. Það er ætlun okkar að efla félagið til enn frekari dáða og með honum ásamt því öfluga starfsfólki sem við þegar höfum á að skipa teljum við að við séum á réttri leið,“ segir Birgir Bjarnason, formaður Félags atvinnurekenda.

 
Frekari upplýsingar veita Birgir Bjarnason í síma 820 1310 og Ólafur Stephensen í síma 669 1218.
Félag atvinnurekenda er hagsmunasamtök lítilla sem stórra fyrirtækja í inn- og útflutningi, heildsölu og smásölu. Félag atvinnurekenda gætir hagsmuna aðildarfyrirtækja sinna með því að vera framvörður heilbrigðra verslunarhátta sem tryggir réttlátar leikreglur í samkeppni og eflir hag viðskipta og verslunar á Íslandi.

Nýjar fréttir

Innskráning