Nýtt greiðsluþátttökukerfi tekur brátt gildi

04.04.2013

Nýtt þrepaskipt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakaupa tekur gildi þann 4. maí. Markmiðið með nýju kerfi er að skapa aukið jafnræði meðal einstaklinga óháð sjúkdómum. Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands hefur hingað til verið mjög misjöfn milli sjúkdóma. Í greiðsluþátttökukerfinu sem er við gildi í dag reiknast greiðsluþátttaka við hverja lyfjaávísun og ekkert þak er á heildarkostnaði einstaklings sem er sjúkratryggður. Með nýja kerfinu eykst greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands í þrepum eftir því sem heildarkostnaður einstaklings eykst á 12 mánaða tímabili, þ.a. ef einstaklingur kaupir lyf í fyrsta skipti 1. júní 2013 hefst nýtt 12 mánaða tímabil 1. júní 2014. Með þessari breytingu mun greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vera meiri hjá þeim einstaklingum sem nota mest af lyfjun heldur en hjá þeim sem nota minna af lyfjum.

 

Margir óttast hins vegar fyrsta þrep kerfisins en þar leggst allur kostnaður undir 24 þúsund krónum, eða 16 þúsund krónum ef um ungmenni eða lífeyrisþega er að ræða, á viðkomandi einstakling.  Á heimasíðu Lyfjavers stendur að Velferðaráðuneytið hefur fengið hugmyndir að lausnum sem aðstoða sjúklinga við byrjunarþrepið en ráðuneytið hefur hafnað þeim öllum. Reglugerðir gera allar ráð fyrir að einstaklingar leggi út fyrst fyrir kostnað og sæki svo um endurgreiðslu en það getur skapað vandamál hjá þeim sem hafa lítil fjárráð og hafa einfaldalega ekki fyrir upphafsþrepinu.

 

Öryrkjabandalag Íslands hefur til að mynda töluverðar áhyggjur varðandi stórs hóps öryrkja en margir lifa á lágmarksframfærslu og sjá ekki fram á að geta staðið undir greiðslum fyrir fyrsta þrep lyfjakostnaðar.

 

Félag atvinnurekenda hefur einnig bent á erfiðleikana sem nýtt greiðsluþátttökukerfi geta skapað hjá stórum hluta sjúklinga.Með umsögn sinni, sem send var til Velferðarráðuneytisins í byrjun september 2012, hefur FA lagt til að samhliða upptöku nýs greiðsluþátttökukerfis yrði mótað úrræði sem myndi auðvelda einstaklingum að afla sér þeirra lyfja sem þeir þurfa og eiga rétt á.

 

Félag atvinnurekenda hvetur félagsmenn sína til að hafa samband óski þeir eftir aðstoð við að skilja nýtt greiðsluþátttökukerfi eða að fá nánari upplýsingar.

 

Einnig er hægt að nálgast nánari upplýsingar um greiðslukerfið á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands.

 

Lyfjaver hefur sett reiknivél á heimasíðu sína þar sem einstaklingar geta reiknað út greiðslubyrði sína vegna lyfjakostnaðar.

Nýjar fréttir

Innskráning