Nýtum tæknina í þágu neytendaupplýsinga

16.09.2020
Neytendur geta innan skamms nálgast miklar upplýsingar um innihald og uppruna vara með því að skanna strikamerki með snjalltæki. 

Nýjar tæknilausnir sem geta meðal annars stóraukið upplýsingagjöf um matvæli til neytenda eru að ryðja sér til rúms. Mikilvægt er að stjórnvöld fylgist vel með og stuðli að því að þær verði nýttar í sem mestum mæli. Stjórnvöld ættu að stuðla að því að neytendur geti hafið notkun lausnanna hið fyrsta, e.t.v. í gegnum smáforrit í símanum sínum. Stjórnvöld ættu jafnframt að beita sér fyrir því að neytendur og verslunarfyrirtæki verði meðvituð um tilvist og notagildi lausnanna. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu um betri merkingar matvæla, en hún var samin af samráðshópi þar sem Félag atvinnurekenda átti fulltrúa.

Í skýrslunni er m.a. fjallað um bálkakeðjutæknina og Gagnalaug GS1, en FA hefur kynnt þá tæknilausn fyrir félagsmönnum sínum. Þessar tæknilausnir gera neytendum kleift að nálgast miklu ýtarlegri upplýsingar en hægt er að koma á umbúðir flestra vara með því að skanna QR-kóða eða strikamerki með snjalltækjum eða skönnum, sem settir eru upp í verslunum. Viðkomandi tæki sækja þá upplýsingar um viðkomandi vörur í gagnalaugar á netinu, t.d. um innihaldsefni, þ.m.t. ofnæmis- og óþolsvalda, næringargildi, vottanir og uppruna.

Á meðal annarra tillagna hópsins er eftirfarandi:

  • Aukin verði ráðgjöf og leiðbeiningar bættar um notkun þjóðfánans á matvælum.
  • Bætt verði skilyrði og staða neytenda til þess að taka meðvitaða og upplýsta ákvörðun varðandi uppruna fersks kjöts sem er á boðstólum á veitingastöðum, mötuneytum og öðrum stöðum sem selja matvæli sem ekki eru forpökkuð.
  • Bætt verði skilyrði og staða neytenda til þess að taka meðvitaða og upplýsta ákvörðun varðandi uppruna fiskafurða sem seldar eru í matvöruverslunum með því að gera auknar kröfur til merkinga fiskafurða hér á landi. Lagt er til að gerðar verði sambærilegar kröfur og gerðar eru innan Evrópusambandsins.
  • Upplýsa þarf rekstraraðila, sem selja matvæli sem ekki eru forpökkuð, um mikilvægi réttrar tilgreiningar á þeim efnisþáttum sem skipt hefur verið út fyrir aðra þætti. Hér er t.d. átt við matvæli sem ekki innihalda dýraafurðir en eru merkt „mjólk“ eða „rjómi.“ Mikilvægt er að tryggja að upplýsingar og merkingar á matvælum séu ekki villandi fyrir neytendur.
  • Taka þarf til skoðunar valkvæðar merkingar sem geta bætt upplýsingagjöf til neytenda svo sem Nutri Score-næringarmerki sem notað er innan Evrópusambandsins, sameiginlegt upprunamerki fyrir innlendar búvörur sem og matarhandverksmerki sem er til þess fallið að auka möguleika neytenda á að aðgreina matarhandverk frá fjöldaframleiddum vörum.
  • Yfirvöld sýni gott fordæmi og birti kolefnisspor þeirra máltíða sem boðið er upp á í mötuneytum ríkisaðila. Jafnframt er lagt til að skapaður verði efnahagslegur hvati sem stuðli að því að matvælaframleiðendur, vinnsluaðilar og verslunin greini og birti upplýsingar um kolefnisspor.
  • Bændasamtök Íslands hafa lýst yfir vilja til að eiga og reka sameiginlegt myndmerki fyrir landbúnaðinn, svokallað Búvörumerki, sem matvælaframleiðendur hafa val um að setja framan á umbúðir matvæla úr innlendum búvörum sem innihalda að lágmarki 75-80% innlend hráefni. Að mati hópsins myndi innleiðing slíks merkis auðvelda upplýst val neytenda tengt uppruna búvara og hann sér því ávinning af henni fyrir neytendur. Hópurinn vill jafnframt sjá að framleiðendur séu hvattir til að leggja metnað sinn í að merkja á skýran hátt upprunaland búvara, óháð því hvort þeim sé það skylt eða ekki.
  • Átaksverkefni verði hrundið af stað sem miðar að því að tryggja aukna meðvitund neytenda um rétt sinn til upplýsinga um matvæli og hvar þeir geti nálgast slíkar upplýsingar. Átakið verði einnig til þess fallið að fyrirtæki verði betur meðvituð um þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.
  • Kannað verði viðhorf neytenda til merkinga matvæla.

Samráðshópurinn var skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og í honum áttu sæti fulltrúar ráðherra, Félags atvinnurekenda, Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), Neytendasamtakanna, Samtaka iðnaðarins og Bændasamtaka Íslands. Fulltrúi FA var Árni Þór Sigurðsson, gæðastjóri Garra.

Betri merkingar matvæla: Skýrsla samráðshóps

Nýjar fréttir

Innskráning