Stöð 2, Bylgjan og Vísir fjölluðu um helgina um stjórnsýslu atvinnuvegaráðuneytisins, sem enn neitar að endurgreiða innflutningsfyrirtækjum útboðsgjald vegna tollkvóta á búvörum. Héraðsdómur Reykjavíkur komst 17. marz síðastliðinn að þeirri niðurstöðu að gjaldið væri ólögmætt og í andstöðu við stjórnarskrá.
„Í svarbréfum atvinnuvegaráðuneytisins vegna krafna um endurgreiðslu er vísað í lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og að við úthlutun tollkvóta fyrir árin 2013-2015 hafi ráðherra farið eftir gildandi búvörulögum. Þar er hins vegar ekkert vikið að þeirri staðreynd að sjálft gjaldið er ólögmætt samkvæmt dómi héraðsdóms. Ráðuneytið skautar framhjá aðalatriði málsins, grundvelli kröfu fyrirtækjanna, sem er hið ólögmæta útboðsgjald,“ segir í frétt Vísis um málið.
„Bréfin eru óskiljanleg og þetta er algjörlega óboðleg stjórnsýsla. Fyrst rökstyður ráðuneytið ákvörðun sína um að hafna endurgreiðslu gjaldsins bara alls ekki. Það er farið fram á frekari rökstuðning og þá er sagt, jú við fórum eftir lögunum en málið snýst einmitt um að dómstóll hefur sagt að lögin gangi gegn stjórnarskrá landsins. Þetta er algjörlega óskiljanleg stjórnsýsla og algjörlega óboðleg framkoma við neytendur,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við Stöð 2. „Við vorum að skrifa undir kjarasamninga í gær sem halda ekki nema hér verði passað upp á kaupmáttinn og verðlag fari ekki úr böndunum. Á sama tíma heldur ríkið fram svona vitleysu sem hækkar verð á innfluttum mat um tugi prósenta.“