Í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um Ísland segir að skerpa þurfi á samkeppni á Íslandi á ýmsum sviðum. Yfirvöld geti þurft að framfylgja harðari stefnu til að knýja fram samkeppni og styðja þannig við starf Samkeppniseftirlitsins.
Eitt þeirra dæma sem tekin eru í skýrslu OECD er af stöðu Mjólkursamsölunnar á mjólkurmarkaðnum. „Einokun í raun á mjólkurframleiðslu innanlands (ein mjólkursamsteypa ræður nánast öllum markaðnum) var komið á að hluta til með þeim rökum að innlendir framleiðendur væru þá í stöðu til að keppa við innflutning. Engu að síður eru hömlur á innflutningi á mjólkurvörum, og samkeppnisyfirvöld hafa gripið til aðgerða gegn einokunarfyrirtækinu vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu þess,“ segir á bls. 92 í skýrslunni.
„Þessi afstaða OECD er mjög í takt við málflutning Félags atvinnurekenda,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Við höfum lagt til að Mjólkursamsalan verði brotin upp, að undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum verði afnumin og að tollar verði lækkaðir á innflutningi þannig að innlend framleiðsla fái samkeppni. Það verður fróðlegt að sjá hvort stjórnvöld ætla bara að þiggja hrósið frá OECD fyrir það sem vel er gert í efnahagsmálum eða hvort þau ætla líka að taka mark á ábendingum stofnunarinnar um það hvernig má gera enn betur.“