OECD vill harðari stefnu: Úthlutun brottfarartíma í Keflavík samkeppnishamlandi

07.09.2015
Keflavíkurflugvöllur þrengri
Mynd: Hansueli Krapf

Meðferð kvartana lággjaldaflugfélagsins Wow Air yfir að fá ekki úthlutað hentugum brottfarartímum á Keflavíkurflugvelli dregst enn á langinn, þrátt fyrir að því hafi verið slegið föstu strax árið 2008 að úthlutun brottfarartíma á flugvellinum sé samkeppnishamlandi. Með hagstæðari úthlutun brottfarartíma gæti Wow nýtt sér til fulls ábata af Atlantshafsflugi og væri betur í stakk búið að keppa við Icelandair á jafnréttisgrundvelli. Þetta er eitt þeirra dæma sem Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) tekur í nýrri skýrslu sinni um að stjórnvöld ættu að vera harðari í að koma á samkeppni og styðja við samkeppnisyfirvöld.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda fagnar þessum ábendingum OECD. „Neytendur og allur almenningur nýtur ábata þess að til staðar er virk samkeppni á mikilvægum mörkuðum. Þrátt fyrir það virðast íslensk stjórnvöld hafa mikið þol fyrir takmarkaðri samkeppni,“ segir Ólafur. „Oft er það meira að segja svo að stjórnvöld hafa frumkvæði að því að setja reglur og hindranir sem skerða, takmarka eða útiloka samkeppni. Á þetta bendir OECD réttilega og nefnir eitt skýrasta dæmið þar um sem eru aðgangshindranir á Keflavíkurflugvelli sem óumdeilt takmarka samkeppni og skaða hagsmuni almennings.“

Ólafur segir að það liggi í augum uppi hvað samkeppni í flugi hefur mikil og góð áhrif á allt okkar efnahagslíf. „Við sjáum hvað samkeppni, ein og sér, í flugi til Boston hefur gert en samt aðhafast stjórnvöld ekkert til að koma á samkeppni í flugi til New York sem er án efa mikilvægasti áfangastaður í Bandaríkjunum. Ábati þess að koma á samkeppni á þeim markaði yrði margfaldur á við nokkuð það sem við höfum áður séð. “

Skýrsla OECD

Nýjar fréttir

Innskráning