Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda skrifar:
Félag atvinnurekenda hefur markað þá stefnu að verða enn meira áberandi í fjölmiðlum og almennri umræðu. Jafnframt vill félagið efla innri samskipti við aðildarfyrirtækin og starfsfólk þeirra þannig að allir geti fylgzt vel með því sem er að gerast hjá félaginu.
Eitt af markmiðum samskiptastefnu FA er að upplýsingamiðlun okkar sé alltaf vönduð og tæknilega í fremstu röð. Annað er að miðlun okkar sé fyrst og fremst rafræn, þannig að við spörum pappír og verndum umhverfið.
Vefur FA, atvinnurekendur.is, er nú uppfærður mun oftar en áður og birtist ný frétt á vefnum að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku. Verið er að vinna í breytingum á vefnum þannig að hann verði snemma á nýju ári aðgengilegur og auðlæsilegur í farsímum og öðrum snjalltækjum.
Til að minna á okkur munum við senda félagsmönnum, fjölmiðlum og stofnunum sem við eigum samskipti við mánaðarlegan fréttapóst með safni af nýjustu fréttunum af starfi félagsins. Sá fyrsti er sendur út í dag, 17. desember.
Við höfum sömuleiðis einsett okkur að vera áberandi á samfélagsmiðlunum, sem margir nota sem sína aðalupplýsingaveitu. Við setjum færslur á Facebook og Twitter tvisvar til þrisvar í viku, vísum á fréttir á vefnum okkar, bendum á umfjöllun fjölmiðla um félagið og hagsmunamál þess eða tjáum okkur um fréttir sem tengjast baráttumálum FA. Við hvetjum félagsmenn, fjölmiðlafólk og aðra sem vilja fá fréttir af starfi FA eindregið til að læka síðuna okkar á Facebook ogfylgjast með okkur á Twitter.
Með því að gera okkur þannig meira gildandi í umræðunni og gera upplýsingamiðlun félagsins skilvirkari teljum við okkur styðja betur við hagsmunabaráttu FA í þágu aðildarfyrirtækjanna og íslenzks atvinnulífs í heild.