Samkvæmt upplýsingum sem Félag atvinnurekenda hefur aflað sér hjá félagsmönnum sínum í innflutningi mat- og dagvöru eru engar hindranir á innflutningi til landsins og nægar birgðir. Ástæðulaust ætti því að vera fyrir almenning að hamstra vörur í verslunum.
Innflutningsfyrirtæki fá nánast undantekningarlaust upp í pantanir sínar af matvöru og dagvöru á borð við hreinlætis- og ræstingavörur. Mörg hafa þau fengið upplýsingar frá erlendum birgjum sínum um ráðstafanir sem þeir hafa gripið til í því skyni að tryggja órofinn rekstur.
Flest stærri og meðalstór fyrirtæki í matvöruinnflutningi og -dreifingu hafa gripið til sambærilegra ráðstafana, eins og að skipta starfsfólki á vaktir þar sem enginn samgangur er á milli, einangra starfsstöðvar hverja frá annarri o.s.frv. Ýmsir innflytjendur hafa pantað meira en venjulega af þeim vörum sem eru á lista almannavarna yfir æskilegt birgðahald heimila í inflúensufaraldri.
Þá hafa engar fregnir borizt af því að vöruflutningar til landsins hafi raskast.
„Innflutningur og birgðastaða á nauðsynjavörum er með eðlilegum hætti og að svo stöddu engin ástæða til að hamstra vörur,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.