Ójafnræði framleiðenda og innflytjenda

05.12.2014

Félag atvinnurekenda hefur vakið athygli fjármálaráðuneytisins og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á ójafnræði innflytjenda og innlendra framleiðenda sem mun að óbreyttu skapast við gildistöku laga um niðurfellingu vörugjalda um áramót.

 

Frumvarpið um breytingar á lögum um vörugjald og virðisaukaskatt gerir ekki ráð fyrir að innflutningsfyrirtæki geti fengið endurgreiðslu á vörugjaldi af vörum sem þau eiga á lager um áramótin og hafa þegar tollafgreitt og staðið skil á gjaldinu til ríkissjóðs.

 

Heildsalar greiða vörugjöld og aðra tolla þegar varan kemur til landsins og er tollafgreidd; með öðrum orðum áður en hún er seld. Framleiðendur rukka hins vegar vörugjöld við sölu á vörunni og skila gjaldinu einhverjum dögum síðar. Bent er á að innlendir framleiðendur muni með einföldum hætti geta tekið vörugjaldið af reikningum sem þeir dagsetja 1. janúar. Heildsalar/innflytjendur eiga hins vegar tvo kosti; að halda vörunni á sama verði og var fyrir 1. janúar þar til birgðir klárast eða lækka verðið og taka þannig á sig vörugjaldið, sem þeir voru búnir að greiða í ríkissjóð. Innflytjandinn stendur höllum fæti í samkeppninni, sama hvorn kostinn hann tekur. 

 

Þetta misræmi leiðir af sér óhagkvæmni og sóun; meðal annars er bent á að innflytjendur geti annars vegar þurft að halda að sér höndum við innflutning fyrir gildistöku laganna eða leitast við að flytja vörur sínar út aftur eftir gildistöku þeirra til að ná gjöldunum til baka og flytja þær svo inn upp á nýtt. Þetta þýðir líka að erlendir framleiðendur vöru sitja í raun ekki við sama borð og innlendir framleiðendur og innflutningsverzlunin telur á sér brotið.

 

FA hefur vakið athygli á þeim möguleika að setja í lögin bráðabirgðaákvæði um að innflytjendur fái endurgreitt vörugjald sem þeir hafa greitt af óseldum vörum, sem þeir eiga á lager um áramótin.

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning