Opinberu hlutafélögin næsta víglína í baráttu fyrir bættum stjórnarháttum

11.04.2019

„Mikilvægi góðra stjórnarhátta fyrir atvinnulífið“

Erindi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á ráðstefnu Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti í Háskóla Íslands 11. apríl 2019. 

©Kristinn Ingvarsson

Ráðstefnustjóri, ágætu fundargestir.

Ég vil byrja á að þakka Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti fyrir þetta þarfa framtak að halda árlega ráðstefnu þar sem mikilvægi góðra stjórnarhátta er haldið á lofti.

Frá sjónarhóli þeirra sem vinna við að tala fyrir hagsmunum fyrirtækjanna í landinu er mikilvægi góðra stjórnarhátta augljóst.

Traust á atvinnulífinu
Góðir stjórnarhættir eru í fyrsta lagi mikilvægir fyrir traust almennings á atvinnulífinu, alveg burtséð frá því hvort hinn almenni borgari hefur áhuga á að fjárfesta í fyrirtækjum eða ekki. Traustið beið mikinn hnekki eftir hrun og endurheimtist ekki að fullu nema fyrirtækin sýni af sér ábyrgð og gegnsæi sé ríkjandi.

Það er rakið ágætlega í nýlegri bók, sem margir hér hafa vonandi lesið og sem fékk Blaðamannaverðlaun ársins, Kaupthinking eftir Þórð Snæ Júlíusson, hvernig ákvarðanir í Kaupþingi banka voru iðulega teknar með óformlegum og ógegnsæjum hætti, utan stjórnar- eða nefndafunda, voru illa rekjanlegar og menn mundu bara ekkert eftir þeim í yfirheyrslum eða fyrir dómi. Það eru stjórnarhættir sem ber að forðast og þeir sem ekki hafa lesið bókina gætu gert margt vitlausara en að líta í hana – sem leiðarvísi um það hvernig á ekki að gera hlutina í fyrirtækjarekstri.

Gegnsæi um kjör stjórnenda fyrirtækja er líka einkar mikilvægt fyrir traust almennings á atvinnulífinu. Ég leyfi mér að halda því fram að aðhaldssamari og skynsamlegri ákvarðanir starfskjaranefnda og stjórna í nokkrum stórum  fyrirtækjum um laun æðstu stjórnenda hefðu auðveldað til muna störf þeirra sem standa nú í gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrir hönd atvinnurekenda.

Aðgangur fyrirtækja að fjármagni
Í öðru lagi eru góðir stjórnarhættir mikilvægir fyrir aðgang fyrirtækjanna að fjármagni. Margir fjárfestar, bæði innanlands og utan, leggja ekki fé sitt í fyrirtæki sem ástunda ekki góða og ábyrga stjórnarhætti. Hér er bæði erlend fjárfesting og þátttaka almennings í hlutabréfamarkaði minni en víðast hvar í nágrannalöndunum.

Þetta er ekki einstefnugata – bættir stjórnarhættir eru líklegir til að laða þessa fjárfesta að fyrirtækjunum og þeir eru um leið líklegir til að gera kröfur um góða stjórnarhætti. Við höfum séð það á undanförnum misserum að tilnefningarnefndum vegna stjórnarkjörs hefur verið komið á í nokkuð mörgum fyrirtækjum að kröfu erlendra fjárfesta, sem meta gegnsæi meira en tengslanet og kunningsskap. Ef hér væru starfandi virk samtök almennra fjárfesta eins og víðast í nágrannalöndum okkar, má ætla að þau myndu gera sambærilega kröfu.

Eiga tilnefningarnefndir að taka tillit til orðsporsáhættu?
Hér er hæfi og hæfni stjórnarmanna sérstaklega til umræðu og tilnefningarnefndirnar tengjast því umræðuefni auðvitað beint. Tilgangur nefndanna er að tryggja að val stjórnarmanna sé gegnsætt og að valinn sé öflugur og fjölbreyttur hópur með margvíslega þekkingu og reynslu. Tilnefningarnefndirnar þurfa að taka tillit til margra sjónarmiða, til dæmis orðsporsáhættu. Mér er stórlega til efs að á sama tíma og menn berjast fyrir því að atvinnulíf og hlutabréfamarkaður endurheimti traust almennings, séu kjörnar í stjórnir almenningshlutafélaga persónur og leikendur úr hneykslismálum hrunsins.

Bættir stjórnarhættir í lífeyrissjóðum
Ég get nefnt það hér í framhjáhlaupi að þessi misserin á sér stað mikil bylting í stjórnarháttum geira atvinnulífsins sem ég kem svolítið að, en það eru lífeyrissjóðirnir. Það var einu sinni litið á það sem býsna góðan bitling og leið til frekari áhrifa og tekna að sitja í stjórn lífeyrissjóðs og valið á stjórnarmönnum ekki endilega gegnsætt. Nú er stjórnarseta í lífeyrissjóði fyrst og fremst mikil vinna undir ströngu eftirliti. Stjórnarmenn sitja almennt ekki í stjórnum annarra fyrirtækja sem sjóðirnir eiga í. Bæði samtök atvinnurekenda og launþega hafa skuldbundið sig til að gera val stjórnarmanna faglegt og gegnsætt með auglýsingum, uppstillingarnefndum og samráði um skipan stjórnar sem tryggi að stjórnir sjóðanna búi sem heild yfir þeirri þekkingu og reynslu sem gera þeim kleift að rækja hlutverk sitt. Þetta er á byrjunarstigi, en er þeim mun mikilvægara sem lífeyrissjóðirnir eru jafnframt orðnir mjög fyrirferðarmiklir á hlutabréfamarkaðnum og ættu að vera öðrum fyrirmynd.

Betri rekstur
Þá er ég kominn að þriðju ástæðunni fyrir því að góðir stjórnarhættir eru mikilvægir fyrir atvinnulífið; að þeir eru einfaldlega lykillinn að betri rekstri. Við höfum séð, ekki bara hér á landi heldur alþjóðlega, að það er gert átak í bættum stjórnarháttum, gegnsæi og ábyrgð, í kjölfar hneykslis- eða spillingarmála. En þetta snýst líka um daglegan rekstur, ekki sízt sá þáttur málsins sem er sérstaklega til umræðu hér í dag, sem eru gæði stjórna hlutafélaga. Stjórnin á bæði að geta staðið með forstjóra fyrirtækis í að marka stefnu þess, lagt inn þekkingu, reynslu og dómgreind og verið að sama skapi mótvægi við hann þegar það á við.  Tilnefningarnefndirnar eiga að geta stuðlað að því að blandan í stjórninni sé sem réttust fyrir fyrirtækið, en samsetning stjórnarinnar verði ekki bara frekar tilviljunarkennd útkoma úr ferli þar sem stærstu hluthafar vilja tryggja hagsmuni sína og aðgang. Þetta er enn mikilvægara en ella hér í samfélagi fámennis og kunningsskapar.

Flokksskírteini fremur en hæfni
Af því að gæði stjórna hlutafélaga eru hér til umræðu langar mig til að tala um svið atvinnulífsins sem hefur verið mér hugleikið, en það eru opinberu hlutafélögin sem eru býsna fyrirferðarmikil á ýmsum mörkuðum. Hér er ég að tala um félög eins og Isavia, RÚV og Íslandspóst. Þrátt fyrir að þessi fyrirtæki segist a.m.k. sum hver hafa hliðsjón af leiðbeiningum Viðskiptaráðs, Kauphallarinnar og SA um stjórnarhætti – og í leiðbeiningunum segi að það sé æskilegt að þau geri slíkt – er ljóst að þarna vantar mikið upp á. Hversu mikið er mismunandi eftir fyrirtækjum. Ég gæti farið út í þá sálma í löngu máli, en læt nægja hér að segja að þótt gæði stjórna þessara fyrirtækja hafi mögulega farið batnandi á undanförnum árum, þarf maður ekki annað en að renna yfir listann yfir stjórnarmenn til að sjá að þar er mikið af fólki sem fékk stjórnarsætið vegna flokksskírteinis eða tengsla við ráðamenn, en ekki af því að það hafi reynslu, menntun eða innsýn sem gerir því kleift að sinna hlutverki stjórnarmanns eins og það er skilgreint í leiðbeiningunum.

Svo ég taki nú dæmi af opinberu hlutafélagi sem ég hef stundum nefnt í ræðu og riti, Íslandspósti, er deginum ljósara að þar höfðu stjórnarmenn enga burði til að marka stefnu fyrir fyrirtæki sem stóð á erfiðum tímamótum og ekki heldur til að draga í efa stefnu eða ákvarðanir forstjóra sem keyrði fyrirtækið út í skurð með ærnum tilkostnaði fyrir skattgreiðendur.

Ég ætla að nota þetta tækifæri til að leggja til að faglegir stjórnarhættir í opinberum hlutafélögum, þar með talið val stjórnarmanna, verði næsta víglína í baráttunni fyrir bættum stjórnarháttum í íslenzku atvinnulífi. En þá þarf eigandinn, sem er ríkisvaldið, líka að hafa áhuga og vilja til að bæta rekstur og gegnsæi í þessum fyrirtækjum og móta betri eigendastefnu.  Stjórnmálamenn þurfa þá líka mögulega að fórna einhverju af áhrifum sínum í þágu betri opinbers rekstrar.

Svo ég dragi þetta saman hér í lokin; það eru þrjár góðar ástæður fyrir því að það er hagur atvinnulífsins að áfram sé unnið að góðum stjórnarháttum, formfestu, gegnsæi og ábyrgð í fyrirtækjum. Í fyrsta lagi traust á atvinnulífinu, í öðru lagi aðgangur að fjármagni og í þriðja lagi einfaldlega betri rekstur.

Spurningar um framkvæmdina
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að fyrsta útgáfa leiðbeininganna um stjórnarhætti fyrirtækja leit dagsins ljós árið 2004. Hrunið kom í millitíðinni og setti þessa vinnu dálítið út af sporinu um tíma, þannig að íslenzk fyrirtæki eru að mörgu leyti skemmra á veg komin og hafa minna aðhald að stjórnarháttum en fyrirtæki í nágrannalöndunum. Ég held að það sé þó alveg klárt að viljinn til að bæta stjórnarhætti er fyrir hendi, en það má spyrja ótal spurninga um framkvæmdina og til dæmis velta fyrir sér gæðum þeirrar vinnu sem er unnin á grundvelli reglnanna. Lýsa stjórnarháttaskýrslur fyrirtækja því til dæmis í raun og með skýrum og skilmerkilegum hætti hvernig ákvarðanataka fer fram innan þeirra? Eru starfskjaranefndir tengdar við raunveruleikann í kjaramálum á Íslandi?  Eru Íslendingar almennt góðir í formfestunni sem gegnsæi og góðir stjórnarhættir útheimta? Munum við hvert og eitt eftir góðu dæmi um mál þar sem við hugsuðum: Ahh, þarna björguðu góðir stjórnarhættir okkur frá mistökum eða hneyksli?

Þetta verður eflaust allt með einum eða öðrum hætti til umræðu hér í dag. Ég þakka Rannsóknarmiðstöð um góða stjórnarhætti fyrir framtakið og ekki sízt Eyþóri; hann veit hvað hann syngur. Ég vænti þess að þetta verði fræðandi og uppbyggilegur morgunn og segi þessa ráðstefnu setta.

 

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning