Opnað fyrir innflutning á lífrænni mjólk

15.10.2014

Félag atvinnurekenda hefur fengið til umsagnar drög að tillögu ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara til landbúnaðarráðherra, um að hann gefi út opinn og tollfrjálsan innflutningskvóta fyrir lífræna mjólk. Tillagan er til komin vegna nýlegrar beiðni Mjólkurbúsins Kú ehf, sem bent hefur atvinnuvegaráðuneytinu á að skortur sé á lífrænni mjólk á innanlandsmarkaði.

 

Síðast þegar ráðgjafarnefndin úthlutaði innflutningskvóta fyrir lífræna mjólk að beiðni Kú tók það hana um það bil ár. Félag atvinnurekenda fagnar því hvað viðbrögð nefndarinnar eru núna jákvæð og skjót.

 

„Menn eru vonandi að hysja upp um sig í atvinnuvegaráðuneytinu. Samkvæmt lögum ber ráðherra að gefa út innflutningskvóta á lægri tollum þegar skortur er á innlendri landbúnaðarvöru og þessi vinnubrögð eru í samræmi við það,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Umræða undanfarinna daga og vikna um stíft kerfi sem hyglir innlendri framleiðslu á kostnað innflutnings hefur augljóslega borið árangur. Þetta er jákvæð ákvörðun hjá ráðgjafarnefndinni og setur mikilvægt fordæmi um innflutning annarra landbúnaðarafurða þar sem innlend framleiðsla er engin eða annar ekki eftirspurn.

 

Með því að ráðuneytið fari að lögum og láti ekki verndarpólitík flækjast fyrir ákvörðunartöku sinni verða ákvarðanir þess fyrirsjáanlegar fyrir alla sem hlut eiga að máli. Það þýðir að fyrirtæki eins og Kú búa við öruggari rekstrarskilyrði og neytendur hafa ávallt aðgang að öllum þeim tegundum matvæla sem þeir kjósa að neyta.“

Nýjar fréttir

Innskráning