Örar breytingar á gosdrykkjamarkaði án opinberrar neyslustýringar

05.12.2017

Miklar breytingar hafa orðið á gosdrykkjaneyslu Íslendinga undanfarin misseri. Dregið hefur úr neyslu sykraðs goss án þess að til kæmi sykurskattur eða önnur opinber neyslustýring. Á þetta benti Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í M0rgunútvarpinu á Rás 2 þar sem hann ræddi hugmyndir Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um endurupptöku sykurskatts við Sigríði Kristínu Hrafnkelsdóttur, formann Félags lýðheilsufræðinga.

Samkvæmt gögnum frá Markaðsgreiningu/AC Nielsen fyrir síðustu 35 mánuði, þ.e. frá ársbyrjun 2015, hefur markaðshlutdeild sykraðra gosdrykkja lækkað úr 51% í 46%. Hlutfall sykurlausra gosdrykkja, þ.e. með sætuefnum, stendur í stað og er 26%, en hlutdeild kolsýrðra vatnsdrykkja hefur hækkað úr 22% í 28%. Á sama tíma hefur markaðurinn stækkað, þannig að þessar tölur þýða að neysla á sykruðum gosdrykkjum hefur minnkað um 12% og neysla ósætra drykkja um 3%, en neysla á kolsýrðu vatni hefur vaxið um 34%. Þessi gögn eru byggð á upplýsingum úr kassakerfum um 95% smásöluverslana á Íslandi.

Ólafur sagði þetta dæmi um að gosdrykkjaframleiðendur mættu þörfum og óskum neytenda og markaðarins. Fyrirtæki sem vildu sýna samfélagslega ábyrgð drægju markvisst úr notkun sykurs í vörum sínum. Þannig sagði Ólafur að stór innlendur gosdrykkjaframleiðandi hefði á undanförnum sex árum minnkað magn sykurs í hverjum framleiddum lítra um 15%. „Þetta er miklu hraðari þróun en menn telja sig hafa séð með upptöku sykurskatts, til dæmis í Mexíkó,“ sagði Ólafur.

Framkvæmdastjóri FA sagðist almennt hafa litla trú á tilraunum stjórnvalda til að stýra neyslu og hegðun fólks með sköttum. „Spurningin er alltaf: Hvar ætlarðu að hætta ef þú ætlar að stýra neyslu okkar og hegðun með sköttum. Jú, sykur er óhollur. Salt er líka óhollt, fita er óholl, koffín er óhollt. Allt er þetta óhollt ef maður neytir þess í of miklu magni, en er allt í lagi ef maður neytir þess í hófi … Meðal annars þess vegna gjöldum við varhug við þessum hugmyndum; að skattleggja svona einhverja eina almenna neysluvöru ryður brautina fyrir að menn reyni að stýra öllu mögulegu og ómögulegu með skattlagningu í staðinn fyrir að gera það með upplýsingum og vitundarvakningu, sem ég held að sé miklu skynsamlegri leið,“ sagði Ólafur.

Samtal við framleiðendur komi á undan skattlagningu
Hann benti jafnframt á að þar sem sykurskattur hefði verið settur á, hefði hann haft lítil áhrif á neyslu. Engar rannsóknir sýndu fram á neitt marktækt samband milli skattlagningar á sykur og þróun líkamsþyngdarstuðls eða algengi sykursýki.

Samtök gosdrykkjaframleiðenda í Evrópusambandinu, UNESDA, hafa skuldbundið sig til einhliða að draga úr notkun sykurs um 10% fram til ársins 2020. Ólafur sagði að sér kæmi ekki á óvart þótt íslenzkir gosdrykkjaframleiðendur strengdu svipuð heit. „Ég hefði nú sagt að eitthvert slíkt samtal við gosdrykkjaiðnaðinn ætti að koma á undan skattlagningunni – af því að fyrirtækin finna að sjálfsögðu til samfélagslegrar ábyrgðar.“

Lýðheilsa eða tekjuöflun?
Þegar sykurskattur var lagður á hér á landi á árunum 2013 og 2014 hafði hann lítil sem engin áhrif á neyslu á sykruðum vörum. Gert hafði verið ráð fyrir að neysla myndi dragast saman, en í ljósi þess að hún gerði það ekki, skilaði skatturinn meiri tekjum í ríkissjóð en áætlað var. Ólafur varaði í viðtalinu við tilhneigingu stjórnmálamanna að leggja á nýja skatta sem réttlættir væru með vísan til lýðheilsusjónarmiða en væru í raun fyrst og fremst tekjuöflunarskattar fyrir ríkið. Hann sagðist hafa meiri trú á skynsemi neytenda og markaðslögmálunum í þessu efni en opinberum boðum og bönnum.

Hér að neðan er hlekkur á fróðlega og ýtarlega umfjöllun írska vefritsins The Journal um reynsluna af sykursköttum víða um heim, sem tekin var saman fyrr á árinu í tilefni af áformum írskra stjórnvalda um að taka upp slíkan skatt.

Viðtal við Ólaf Stephensen og Sigríði Kristínu Hrafnkelsdóttur á Rás 2

Umfjöllun The Journal um sykurskatta

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning