Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir ljóst að væntingar um miklar launahækkanir í næstu kjarasamningum hafi áhrif á gengisþróunina og hafi veikt krónuna undanfarna daga. Þá sé hætta á að óraunhæfar kröfur verkalýðshreyfingarinnar stuðli að harðri lendingu hagkerfisins.
„Mínar áhyggjur eru þær að verði samið um launahækkanir sem að er ekki innistæða fyrir, þ.e.a.s. umfram framleiðniaukningu hjá atvinnulífinu, muni það þýða að gengið fellur, að innflutningur hækkar og líka innlend framleiðsla, þá hækka húsnæðislánin hjá fólki,“ sagði Ólafur í viðtali við Ríkissjónvarpið í gærkvöldi. „Hættan er sú að kaupmáttaraukningin sem menn telja sig vera að semja um sé tekin burt á skömmum tíma, en að eftir sitji umbjóðendur verkalýðsforystunnar með hærri lánastabba og þyngri greiðslubyrði.“
Kollsteypan er ekki nauðsynleg
Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Ólafur að fréttir af kröfugerð launþegasamtaka hafa örugglega haft sitt að segja um gengisþróunina síðustu daga með því að slá á væntingar í efnahagsmálum. Horfur séu á meiri óróa í kjara- og efnahagsmálum á næsta ári en útlit var fyrir. Stöðugleiki síðustu ára sé í hættu. „Við þurfum ekki nauðsynlega að taka kollsteypu. Kröfugerð launþegasamtakanna eykur vissulega áhyggjur okkar af því að missum lendingu hagkerfisins úr böndunum. Að hún verði mjög hörð í staðinn fyrir að vera mjúk.“