„Endahnútur“ – grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 7. apríl 2016
Stundum er eins og stjórnmálamenn á litla landinu okkar haldi að það sem þeir segja og gera fréttist ekkert út fyrir þennan 330 þúsund manna hóp sem hér býr.
Við vitum núna að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vissi um leið og hann gekk út úr viðtalinu við SVT 11. marz að erlendir fjölmiðlar höfðu upplýsingar um eignarhald hans og konu hans á Tortólafélagi. Fljótlega eftir það – þegar eiginkonan var búin að upplýsa um tilvist félagsins á Facebook og setja ofan í við „Gróu á Leiti“ – varð ljóst að umfjöllun um Wintris var þáttur í alþjóðlegu rannsóknarverkefni margra fjölmiðla. Það hefði átt að hringja einhverjum bjöllum hjá forsætisráðherranum og ráðgjöfum hans – þeir hefðu átt að geta áttað sig á því að fréttin af Tortólaeignum hjónanna og myndbandið af Sigmundi þar sem hann segir fyrst ósatt og stormar svo á dyr yrði heimsfrétt og myndi skaða orðspor Íslands.
Engu að síður var haldið áfram að fást við málið eins og einhverja innansveitarkróniku og kvarta undan því að fréttamenn RÚV væru vondir við ráðherrahjónin. Þegar forsætisráðherrann var kominn á mynd í alþjóðlegum fjölmiðlum með þeim Pútín og Assad kom í ljós að hann og stjórnarráðið undir hans stjórn voru algjörlega óviðbúin.
Á Bylgjunni á þriðjudagsmorgun var forsætisráðherrann ennþá með höfuðið á bólakafi í sandinum og sagði að hann teldi að málið hefði engin áhrif haft á orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. Heimsfréttirnar sögðu okkur allt aðra sögu. Þá hafði Sigmundur enn í huga að sitja sem fastast. Síðar um daginn tók hann þá einu ákvörðun sem gat mögulega lagfært orðspor Íslands út á við; að segja af sér. Hvernig undirmönnum hans í forsætisráðuneytinu tókst síðan að klúðra þeirri frétt með verstu fréttatilkynningu seinni tíma verður vafalaust kennsluefni í almannatengslafræðum um langa hríð.
Þeir sem stjórna heilu ríki ættu að vita jafnvel og þeir sem stjórna fyrirtæki að orðspor er verðmæt eign. Það er hægt að klúðra því á einni nóttu en tekur langan tíma að byggja það upp. Nýr forsætisráðherra mætti leggja það á minnið.