Orkuöryggi fyrir atvinnulífið

06.12.2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA á vef Fréttablaðsins 6. desember 2022.

„Mjög mikilvægt er að stórbæta dreifikerfið innanlands,“ skrifar Ólafur.

Evrópa stendur frammi fyrir orkukreppu og orkuöryggi álfunnar er ekki tryggt. Ástæðurnar eru fjölþættar. Ekki er eingöngu hægt að kenna því um að Rússar hafi skrúfað fyrir gasflutninga. Fólksfjölgun og aukin efnahagsumsvif kalla á aukna orku. Orkuskipti og skuldbindingar Evrópuríkja vegna loftslagsmála vega sömuleiðis þungt. Þörfin fyrir hreina, endurnýjanlega orku fer hratt vaxandi.

Eins og Fréttablaðið hefur fjallað um að undanförnu, er Ísland ekki undanskilið þessari þróun. Mörgum hefur eflaust brugðið í brún þegar orkufyrirtæki fóru að hvetja til þess í haust að fólk sparaði heita vatnið, því að ekki væri víst að nóg yrði til af því í vetur. Fréttablaðið hafði fyrir stuttu eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að áralöng pattstaða vegna karps um rammaáætlun hefði reynzt Íslandi kostnaðarsöm á tímum vaxandi orkuskorts. Ráðherrann sagði í samtali við blaðið að rammaáætlun hefði verið stopp í níu ár. Á þeim tíma hefðu litlar rannsóknir verið stundaðar og nánast engin ný orkuöflun átt sér stað.

Öflugt atvinnulíf þarf meiri orku
Fyrir íslenzkt atvinnulíf er algjört stórmál að nóg sé til af endurnýjanlegri og öruggri orku, ekki síður en fyrir heimilin í landinu. Í áðurnefndri umfjöllun Fréttablaðsins nefndi Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri að ef áform um fiskeldi á landi gengju eftir myndi skapast eftirspurn eftir heitu vatni sem næmi þörf allra höfuðborgarbúa í dag. Ekki þarf heldur að hafa mörg orð um mikilvægi nægrar raforku fyrir fyrirtæki, bæði vegna starfsemi sem er rafknúin í dag og ekki síður fyrir orkuskipti í þágu loftslagsmála og orkuöryggis, t.d. rafvæðingu vörudreifingar sem nú er rétt að hefjast.

Litlar rannsóknir og nánast engin ný orkuöflun í níu ár – það er býsna ólíkt því sem er að gerast í ýmsum nágrannaríkjum okkar, þar sem er gífurlega hröð þróun og miklar framkvæmdir við vatnsafls-, jarðvarma-, vind- og sólarorkuvirkjanir. Í Noregi eru nýjar virkjanir teknar í notkun á ári hverju. Ríkisorkufyrirtækið Statkraft, landsvirkjun þeirra Norðmanna, áformar að taka 40 nýjar virkjanir í notkun árlega í þeim löndum þar sem fyrirtækið starfar – það er ný virkjun á níu daga fresti! Þetta gerist þótt umhverfisverndarsjónarmið séu ekki síður ríkjandi í Noregi en á Íslandi og bendir til að hér á landi ætti líka að vera hægt að finna lausnir. Á meðal nýrra virkjana Statkraft eru vind- og sólarorkuver og endur- og viðbætur við eldri vatnsaflsvirkjanir.

Hvernig heldur Ísland samkeppnisstöðu sinni?
Það er erfitt að halda því fram að í núverandi stöðu sé Ísland í fararbroddi í framleiðslu endurnýjanlegrar orku eins og okkur er þó tamt að halda fram. Það þarf stórátak í orkuframleiðslu á næstu árum til þess að landið haldi samkeppnisstöðu sinni. Orkumálastjóri nefndi í umfjöllun Fréttablaðsins að atvinnulíf víða í Evrópu væri að draga saman seglin vegna skorts á orku. Það skipti því máli fyrir álfuna að „fjárfesta í nýjum innviðum, auka tengingar milli landa og styrkja loftslagsmarkmiðin til lengri tíma.“

Þetta á við um Ísland eins og önnur Evrópulönd. Það þarf að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku og horfa jafnt til jarðvarma, vatnsorku, vindorku og sólarorku. Mjög mikilvægt er að stórbæta dreifikerfið innanlands. Á sumum stöðum á landinu stendur lélegt dreifikerfi atvinnurekstri fyrir þrifum, jafnvel þótt orka sé til í öðrum landshlutum. Og í núverandi stöðu væri algjörlega fráleitt að íhuga ekki raforkutengingar á milli Íslands og annarra landa.

Eru sæstrengir bara til útflutnings?
Síðastnefnda atriðinu hefur stundum verið stillt þannig upp að við værum eingöngu að framleiða orku til útflutnings ef lagðir yrðu sæstrengir á milli Íslands og nágrannalanda okkar. Sú staða er hins vegar að teiknast upp að við getum allt eins þurft á innflutningi raforku að halda. Ef Ísland og nágrannalöndin, til dæmis Noregur og Bretland, jafnvel Grænland, leggja saman í uppbyggingu nýrra virkjana endurnýjanlegrar orku um leið og lagðir væru sæstrengir gætu þau deilt raforku á milli sín eftir þörfum og aðstæðum, aukið sveigjanleikann og stórbætt orkuöryggið. Í umræðunni um orkumál er stundum eins og þessar bláköldu og aðkallandi staðreyndir séu alls ekki uppi á borðinu. Við verðum að taka höfuðið upp úr sandinum og horfast í augu við að í okkar álfu þarf að finna lausnir á orkukreppunni og efla orkuöryggið. Ísland hefur margt að gefa og líka ýmislegt að þiggja í þeirri viðleitni.

Grein Ólafs á frettabladid.is
Viðtal við Ólaf og Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins á Bylgjunni

Nýjar fréttir

Innskráning