Orr skartgripaverslun hlýtur Njarðarskjöldinn og er ferðamannaverslun ársins 2016. Verðlaunaafhendingin fór fram í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur í gær en þetta er í 21. skipti sem verðlaunin eru veitt. Félag atvinnurekenda stendur að verðlaununum ásamt Reykjavíkurborg og fleiri félagasamtökum og fyrirtækjum.
Alls voru 11 verslanir tilnefndar til Njarðarskjaldarins í ár; Epal í Hörpu, Eymundsson í Austurstræti og á Laugavegi, Gilbert úrsmiður á Laugavegi, Gjóska á Skólavörðustíg, GÞ skartgripir og úr í Bankastræti, Handprjónasambandið á Skólavörðustíg, Islandia, í Bankastræti, Nordic Store í Lækjargötu, Upplifun í Hörpu og Orr gullsmiðir á Laugavegi.
Njarðarskjöldurinn er viðurkenning og hvatningarverðlaun sem veitt eru árlega til verslana eða verslunareigenda fyrir góða þjónustu og ferskan andblæ í ferðaþjónustu. Við tilnefningu ferðamannaverslunar ársins er leitast við að verðlauna þá verslun sem hefur náð hvað bestum söluárangri til erlendra ferðamanna milli ára. Horft er til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefjar og útlits almennt. Aðrir þættir eru einnig skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, afgreiðslutími, merkingar um endurgreiðslu virðisauka, lýsing, tungumálakunnátta starfsfólks og þekking á söluvörunum.
Í dómnefnd Njarðarskjaldarins sitja fulltrúar frá Reykjavíkurborg, Miðborginni okkar, Félagi atvinnurekanda, Samtökum verslunar og þjónustu, Kaupmannasamtökum Íslands, Global Blue á Íslandi og Premier Tax Free á Íslandi. Í rökstuðningi tilnefningarinnar kemur eftirfarandi fram:
Alla tíð í miðbænum
„Orr gullsmiðir er afsprengi Kjartans Kjartanssonar. Verslunin sem er jafnframt gullsmíðaverkstæði hefur frá fyrstu tíð verið staðsett í miðborg Reykjavíkur. Lengi vel var verslunin staðsett neðarlega við Laugaveginn en fluttist nýlega um set og hefur haldið sínum takti. Hönnun Orr hefur allt frá fyrstu tíð verið feikilega vinsæl á meðal erlendra ferðamanna enda er hún einstök og efnisval og frágangur fyrsta flokks. Verkstæðið er staðsett í sama húsi og verslunin sem gefur aukna dýpt.
Þjónustustig og tungumálakunnátta starfsfólks er til fyrirmyndar sem og aðgengi að versluninni. Orr skartgripaverslun er björt og stílhrein með góða lýsingu þannig að vörurnar njóta sín til fulls. Stílhreint útlit, glæsileg hönnun, hæft starfsfólk sem hefur hvort í senn gaman af vinnunni og faglega þekkingu á vörunni gerir Orr að ákjósanlegum stað til verslunar fyrir erlenda ferðamenn.“