Ósennilegt að tollmúrar rísi gagnvart Bretlandi

09.10.2020

Ósennilegt er að tollmúrar rísi gagnvart Bretlandi um áramótin, þegar aðlögunartímabilinu eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og þar með Evrópska efnahagssvæðinu lýkur. FA hefur fengið fyrirspurnir frá félagsmönnum sem eiga ýmist í inn- eða útflutningsviðskiptum við Bretland um hvort hætta sé á að almennir tollar verði teknir upp um áramótin í viðskiptum ríkjanna ef ekki hefur tekist að ljúka fríverslunarviðræðum EFTA-EES-ríkjanna við Bretland, en árangur í þeim viðræðum fer að verulegu leyti eftir því hvernig gengur í samningum Bretlands og Evrópusambandsins. Náist ekki framtíðarsamningar við Bretland fyrir áramót er stefnt að því að bráðabirgðafríverslunarsamningur, sem gerður var í fyrra, taki gildi.

Einhver dæmi eru um að breskir birgjar íslenskra innflutningsfyrirtækja hafi þrýst á um að þau birgi sig upp af vörum til að forðast að tollar leggist á innflutning um áramótin. FA hefur ráðlagt félagsmönnum sínum að anda rólega og forðast að binda fé í aukabirgðum.

Umfangsmiklar viðræður
Á vef utanríkisráðuneytisins er ný umfjöllun um stöðu viðræðnanna við Bretland. Miðað er við að nýir samningar leysi af hólmi EES-samninginn og aðra samninga Íslands við ESB í samskiptum Íslands og Bretlands um áramót.  Samningaviðræðurnar eru sagðar afar umfangsmiklar og skiptast í megindráttum í tvennt;  fríverslunarviðræður og viðræður um önnur mál sem falla utan hefðbundins fríverslunarsamnings. Ísland semur ásamt hinum EFTA-ríkjunum innan EES, Noregi og Liechtenstein, um víðtækan fríverslunarsamning við Bretland. Viðræðurnar taka m.a. á markaðsaðgangi fyrir vörur, þjónustu og fjárfestingu. Samningurinn mun jafnframt innihalda ákvæði um upprunareglur og tollamál, tæknilega staðla og reglur um dýraheilbrigði, hugverkaréttindi og sjálfbæra þróun.

Í umfjöllun ráðuneytisins kemur fram að sá möguleiki sé fyrir hendi að aðlögunartímabilinu ljúki áður en nýr framtíðarsamningur hefur tekið gildi. Talsvert veltur á því hvernig gengur í viðræðum Breta og Evrópusambandsins, en ný samningalota hefst í London í dag. Frestur til að ná samkomulagi í tæka tíð rennur út eftir viku, en ennþá ber mikið í milli í viðræðunum.

Bráðabirgðasamningur frá 2019 gæti tekið gildi
Fari svo að samningar náist ekki fyrir áramót, kemur fram í umfjöllun utanríkisráðuneytisins að stefnt sé að því að bráðabirgðafríverslunarsamningur sem Ísland og Noregur gerðu við Bretland vorið 2019 geti tryggt kjarnahagsmuni Íslands þar til viðræðum um víðtækari framtíðarsamning er lokið.

„Bráðabirgðasamningurinn kveður á um að núverandi tollkjör myndu í grundvallaratriðum halda áfram að gilda fyrir inn- og útflutning til og frá Bretlandi þar til samið hefur verið um nýjan og viðameiri fríverslunarsamning á milli ríkjanna. Þó að samningurinn hafi upprunalega verið gerður vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings væri mögulegt að beita honum til að brúa bilið eftir lok aðlögunartímabilsins verði viðræðum um yfirgripsmeiri fríverslunarsamning ekki lokið í tæka tíð,“ segir á vef ráðuneytisins.

„Hér er því um að ræða tvær mögulegar sviðsmyndir. Annars vegar að nýr fríverslunarsamningur taki gildi um áramót og hins vegar að bráðabirgðafríverslunarsamningur um vöruviðskipti taki gildi um áramót með minniháttar breytingum komi samningsaðilar  sér saman um það. Bráðabirgðasamningurinn myndi gilda tímabundið þangað til nýr fríverslunarsamningur tæki gildi. Í báðum tilvikum myndu inn- og útflutningshagsmunir íslenskra fyrirtækja verða tryggðir þegar kemur að álagningu tolla, þ.e. að álagðir tollar í inn- og útflutningi myndu a.m.k. vera þeir sömu og þeir eru í dag undir EES-samningnum.“

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning