Ósjálfbær ríkisrekstur fjármagnaður með auknum álögum á fyrirtæki

30.03.2023

Stjórn Félags atvinnurekenda hefur samþykkt eftirfarandi ályktun vegna fjármálaáætlunar ríkisins, sem lögð var fram á Alþingi í gær:

„Stjórn Félags atvinnurekenda lýsir vonbrigðum og furðu yfir þeim fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar að hækka tekjuskatt fyrirtækja á næsta ári. Félagið telur fremur ástæðu til að létta sköttum og álögum af fyrirtækjum, til dæmis með því að efna marggefin fyrirheit um að tryggingagjald lækki til samræmis við það sem það var fyrir bankahrun.

Að mati FA er í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gengið alltof skammt í hagræðingu á gjaldahlið ríkisrekstrarins. Þess í stað eru lagðar auknar álögur á fyrirtækin í landinu til að fjármagna ósjálfbæra útþenslu ríkiskerfisins.

Starfsmönnum ríkisins hefur fjölgað úr hófi fram á undanförnum árum eins og nýleg skýrsla Intellecon, unnin fyrir FA, sýnir. FA hvetur stjórnvöld til að ganga harðar fram í lækkun ríkisútgjalda og fækkun ríkisstarfsmanna. Til þess þarf meðal annars að breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og gera þannig starfsmannahald ríkisins sveigjanlegra og nútímalegra.

Stjórn FA lýsir jafnframt vonbrigðum með að ekki skuli stafkrók að finna í fjármálaáætluninni um lækkun tolla til að stuðla að aukinni samkeppni, lægra matarverði og lækkandi verðbólgu. FA og viðsemjendur þess innan Alþýðusambandsins hafa engin viðbrögð fengið við þeim tillögum um lækkun tolla sem lagðar voru fyrir fjármálaráðherra og matvælaráðherra í byrjun febrúar. Stjórnvöld virðast í því efni kjósa að gæta þröngra sérhagsmuna fremur en að horfa á almannahag.“

Viðtal við Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra FA í Morgunblaðinu

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning