Félag atvinnurekenda, VR, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna og Rafiðnaðarsamband Íslands hafa sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
VR, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna, Rafiðnaðarsambandið og Félag atvinnurekenda hafa óskað eftir fundi með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra til að ræða lækkun og niðurfelllingu tolla í þágu neytenda.
Vísað er til bókunar við kjarasamninga FA og VR/LÍV annars vegar og FA og RSÍ hins vegar, sem undirritaðir voru í síðasta mánuði. Þar sammælast samningsaðilar um að óska eftir því við stjórnvöld að farið verði í vinnu við að afnema og lækka tolla í þágu neytenda. „Lækkun tolla er ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega. Að mati samningsaðila væri góð byrjun að afnema tolla sem vernda enga hefðbundna innlenda landbúnaðarframleiðslu,“ segir í bókuninni.
Í sameiginlegu erindi formanna samtakanna til ráðherranna tveggja segir: „Í núverandi verðbólguástandi hljóta stjórnvöld að skoða allar leiðir til að lækka verð á vörum fyrir almenning í landinu til að varðveita kaupmátt þeirra kjarabóta sem um hefur verið samið. Með lækkun tolla má ná miklum árangri í þeim efnum án þess að ríkissjóður tapi tekjum sem neinu nemur. Þá er ástæða til að ræða framkvæmd á útboðum tollkvóta út frá hagsmunum neytenda. Neðangreind samtök óska eftir að fá fund með ráðherra sem allra fyrst til að ræða hvernig gera megi breytingar á skipan tollamála í þágu neytenda og launafólks.“
Bréf samtakanna til Svandísar Svavarsdóttur
Bréf samtakanna til Bjarna Benediktssonar