Óskað samtals við borgaryfirvöld um vandkvæði á dreifingu í miðbænum

19.03.2018

Félag atvinnurekenda og Klúbbur matreiðslumeistara hafa óskað eftir samtali við borgaryfirvöld í Reykjavík um vaxandi vandkvæði við vörudreifingu birgja til veitingahúsa og hótela í miðborginni. Í bréfi, sem sent var Hjálmari Sveinssyni, formanni Umhverfis- og skipulagsráðs, óska samtökin eftir fundi með borgaryfirvöldum hið fyrsta til að reyna að finna lausnir á þeim vanda sem nú er uppi.

Í bréfi samtakanna til borgarinnar er bent á að undanfarin ár hafi veitingastöðum og hótelum í miðborginni fjölgað gríðarlega, enda þurfi að anna hraðvaxandi eftirspurn vegna fjölgunar ferðamanna. „Undirrituð samtök hafa ekki á takteinum glænýjar tölur um fjölda veitingastaða í miðborg Reykjavíkur, en í ársbyrjun 2016 lét Rannsóknasetur verslunarinnar telja þá og voru þeir þá 177 talsins og hafði fjölgað um 69% frá árinu 1999,“ segir í bréfinu. „Í viðtali við Fréttablaðið 25. janúar 2016 mat Óli Örn Eiríksson, sviðsstjóri atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, það svo að miðað við vænta fjölgun ferðamanna gæti veitingastöðum í miðborginni fjölgað um 50 -70 á árunum 2016-2020. Eins og áður segir, höfum við ekki nákvæmar tölur en ljóst er að stöðunum hefur fjölgað mikið á þeim rúmlega tveimur árum sem síðan eru liðin. Um leið hefur hótelum fjölgað mjög í miðborginni, en þau taka til sín mikið af aðföngum. Samfara fjölguninni er mikil veltuaukning og aukinn veltuhraði á mörgum veitingastöðum. Stöðunum er oft þröngur stakkur skorinn varðandi lagerpláss og lítt fyrirsjáanlegt hvaða réttir eru vinsælastir frá degi til dags. Það leiðir af sér að margir veitingastaðir panta frá birgjum oftar en einu sinni á dag.“

Þrengt að dreifingarstarfseminni
Á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað hefur þrengt að möguleikum birgja veitingahúsanna til að athafna sig í miðborginni. „Borgin hefur til þessa ekki verið til viðtals um að rýmka „gluggann“ sem dreifingaraðilar hafa til að þjónusta veitingahúsin, en hann er nú aðeins þrjár klukkustundir, frá klukkan 8 til 11 árdegis. Umferð, jafnt ökutækja sem gangandi og hjólandi vegfarenda, fer vaxandi. Þrengingar eða lokanir gatna vegna byggingarframkvæmda eru algengari en áður. Sumarlokanir gatna í miðborginni gera sömuleiðis að verkum að erfiðara er að þjónusta veitingahús og hótel á þeim tíma ársins. Um leið hefur fækkað stæðum þar sem flutningabílar dreifingaraðila geta lagt á meðan verið er að þjónusta veitingahúsin.

Starfsmenn Bílastæðasjóðs borgarinnar ganga hart fram gagnvart flutningabílum sem lagt er utan merktra stæða. Margir birgjar eru farnir að líta á það sem hluta rekstrarkostnaðar að greiða tugi eða hundruð þúsunda króna mánaðarlega í stöðubrotasektir. Stjórnendur viðkomandi fyrirtækja vildu mjög gjarnan geta hagað starfseminni þannig að slíkt kæmi aldrei fyrir, en raunveruleikinn er sá að bifreiðarstjórum er iðulega nauðugur sá kostur að leggja utan merktra stæða; annars tækist einfaldlega ekki að þjónusta veitingahúsin.

Fyrirtæki sem í hlut eiga hafa farið þess á leit við undirrituð samtök að þau beiti sér fyrir samtali við borgaryfirvöld sem hafi að markmiði að finna lausnir á þeim vanda sem hér er lýst,“ segir í bréfi FA og KM.

Hugmyndir til úrbóta

Í bréfinu eru meðal annars settar fram eftirfarandi hugmyndir um úrbætur:

  • Reglur um tímabil vörudreifingar, stærð og gerð bifreiða o.fl. verði samræmdar því sem gerist í miðborgum í nágrannalöndunum, að undangenginni skoðun á því hvar best hefur tekist til.
  • Skoðað verði að koma á fót sérstökum stæðum sem bifreiðar dreifingaraðila gætu nýtt. Hluti af lausninni gæti verið að samnýta á móti ferðaþjónustufyrirtækjum rútustæði í miðborginni.
  • Framkvæmd Bílastæðasjóðs á eftirliti með stöðubrotum verði skoðuð og jafnframt sérstakar merkingar fyrir bifreiðar dreifingaraðila.

„Það er mat undirritaðra samtaka að sá rammi reglna og aðstöðu, sem borgaryfirvöld hafa búið dreifingu til veitingahúsa í miðborginni nái einfaldlega ekki utan um umfang þessarar starfsemi, eigi hún að geta gengið snurðulaust fyrir sig við núverandi aðstæður. Félögin líta svo á að það séu hagsmunir allra; borgaryfirvalda, íbúa í miðborginni, gesta miðborgarinnar, veitingahúsa og birgja, að regluramminn verði sniðinn að veruleikanum og árekstrum afstýrt,“ segir í bréfi Félags atvinnurekenda og Klúbbs matreiðslumeistara.

Bréf FA og KM til Reykjavíkurborgar

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning