Ostaframleiðandinn fær sitt, neytandinn bíður

28.09.2017

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 28. september 2017.

Morgunblaðið hefur í mánuðinum flutt allmargar fréttir um innflutning landbúnaðarafurða. Þegar fjallað var um aukinn innflutning á osti var haft eftir talsmönnum landbúnaðarins, þeim Ernu Bjarnadóttur hagfræðingi Bændasamtakanna og Ara Edwald forstjóra Mjólkursamsölunnar, að hækkandi gengi krónunnar yki samkeppni frá innflutningi og drægi úr þeirri vernd sem tollar á búvörur veita innlendri framleiðslu. Þá mætti gera ráð fyrir vaxandi samkeppni vegna innflutnings á tollfrjálsum ostum, samkvæmt samningi Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæmar tollaívilnanir fyrir búvörur.

Rétt er að halda nokkrum staðreyndum til haga í þessari umræðu. Tollasamningurinn við ESB, sem undirritaður var fyrir tveimur árum, hefur verið hagsmunaaðilum í landbúnaði þyrnir í augum og Bændasamtökin hafa gert kröfu um „mótvægisaðgerðir“ til að hafa aftur af neytendum hluta af þeirri verðlækkun sem samningurinn ætti að hafa í för með sér. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var fallizt á tvær þeirra krafna.

Tollahækkun jafnar út gengishækkun
Í fyrsta lagi samdi þáverandi landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, við Bændasamtökin um að hækka tolla á innfluttum osti. Magntollur, sem hafði verið 430 krónur  á kíló, var hækkaður í 635 krónur. Tollahækkunin tók gildi um síðustu áramót.

Eins og tafla 1 sýnir, fer sú tollahækkun langt með að vinna til baka ávinning neytenda af hækkun gengis krónunnar, þegar um verð á innfluttum osti er að ræða. Ef tollar hefðu verið óbreyttir hefði osturinn í dæminu lækkað úr 2.785 krónum í september árið 2015 í 2.463 krónur nú í september, eða um 322 krónur kílóið. Þess í stað kostar osturinn, kominn til landsins, 2.690 krónur og samkeppnin við innlenda ostaframleiðslu harðnar nú ekki mikið við 95 króna lækkun.

„Tollfrjálsi“ innflutningurinn verður dýrari
Í öðru lagi féllst arftaki Sigurðar Inga, Gunnar Bragi Sveinsson, á þá hugmynd Bændasamtakanna að bjóða tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir innfluttar búvörur upp tvisvar á ári, í stað þess að gera það árlega. Félag atvinnurekenda benti fyrirfram á að þessi breyting myndi leiða til mikils óhagræðis fyrir innflytjendur og hækkunar á tollkvótanum. Það gekk líka eftir; útboðsgjaldið, sem er sú upphæð sem innflytjendur greiða fyrir tollkvótann, hækkaði úr 458 krónum að meðaltali á kílóið af osti árið 2016 í 856 krónur á kíló fyrri hluta ársins 2017. Þar spilar áðurnefnd hækkun á almenna tollinum á ost líka inn í; útboðsgjaldið leitar með tímanum jafnvægis við almenna tollinn á viðkomandi vöru.

Fyrir síðari hluta ársins er útboðsgjaldið á kíló af osti „ekki nema“ 715 krónur á kílóið, en eins og tafla 2 sýnir er það engu að síður svo að kílóið af „tollfrjálsum“ osti frá ríkjum Evrópusambandsins hefur hækkað í verði á milli áranna 2015 og 2017, þrátt fyrir umtalsverða styrkingu krónunnar gagnvart evru. Þannig hefur verulega verið bætt í tollverndina, sem ríkisvaldið beitir í raun gagnvart „tollfrjálsa“ innflutningnum með því að bjóða upp tollkvótana.

Landbúnaðurinn fær sitt – neytendur bíða
Í þessum mánuði, nánar tiltekið 16. september, voru tvö ár liðin frá því að skrifað var undir samning Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæmar tollaívilnanir fyrir búvörur. Gildistöku samningsins hefur seinkað af margvíslegum orsökum og nú er búizt við að hann geti tekið gildi um mitt næsta ár, hátt í þremur árum eftir undirritun.

Eins og ofangreind dæmi sýna, hafa „mótvægisaðgerðir“ síðustu ríkisstjórnar vegna samningsins hins vegar þegar tekið gildi og haft áhrif til hækkunar á verði innfluttra osta miðað við það sem ella hefði orðið. Verið er að bæta bændum „tjón“ sem ekki hefur orðið. Landbúnaðurinn nýtur eins og löngum áður verndar gagnvart alþjóðlegri samkeppni, sem aðrar atvinnugreinar hafa ekki og dettur ekki einu sinni í hug að biðja um.

Neytendur bíða því enn þeirra kjarabóta sem áttu að felast í samningnum við ESB. Innlend ostaframleiðsla hefur aftur á móti notið „mótvægisaðgerðanna“ allt þetta ár. Kannski ættum við að hafa það í huga næst þegar harmagráturinn vegna innflutnings á búvörum upphefst.

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning