Osturinn er ekki búinn

07.01.2024

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 5. janúar 2024.

Á milli hátíðanna birti Morgunblaðið litla frétt um að deilu um tollflokkun á pitsuosti væri „endanlega lokið“ eftir að Endurupptökudómur hafnaði endurupptöku dómsmáls, sem Danól, félagsmaður í Félagi atvinnurekenda, höfðaði gegn ríkinu. Niðurstaða Endurupptökudóms var vissulega vonbrigði, en hún þýðir ekki að málinu sé lokið.

Í stuttu máli snerist deilan um að innflutningur á pitsuosti blönduðum með jurtaolíu, sem um árabil hafði verið fluttur inn án tolla, fór í taugarnar á Mjólkursamsölunni og Bændasamtökunum. Þessir aðilar beittu fjármálaráðuneytið þrýstingi og ráðuneytið þrýsti á Skattinn að breyta tollflokkun vörunnar. Það var gert, þvert á álit tollflokkunarsérfræðinga Skattsins, sem sögðust ekki taka þátt í að brjóta lög og sögðu sig frá málinu. Stjórnsýsla Skattsins og ráðuneytisins í málinu var öll með miklum ólíkindum, eins og rakið hefur verið annars staðar. Hin nýja tollflokkun fór þvert á alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Alþjóðatollastofnunin hefur kveðið upp úr um að hún hafi verið röng og Evrópusambandið, þaðan sem osturinn var fluttur út til Íslands, er sömu skoðunar. Í málinu var lykilgögnum leynt, bæði fyrir fyrirtækinu sem í hlut átti, og fyrir dómstólum.

Sem betur fer er það svo að þegar ríki hafa undirgengizt alþjóðlegar skuldbindingar um frjáls viðskipti er röng niðurstaða innanlands ekki endanleg. Breytingar íslenzkra stjórnvalda á tollflokkun vörunnar, sem um ræðir, ganga eins og áður segir gegn skuldbindingum þeirra á vettvangi Alþjóðatollastofnunarinnar og sömuleiðis gegn EES-samningnum. Líklegt verður að telja að málið fari bæði í formlegt kvörtunarferli innan Evrópusambandsins og komi til kasta Eftirlitsstofnunar EFTA. Það væri skelfilegt fordæmi ef stjórnvöld, undir þrýstingi hagsmunaaðila, gætu breytt tollflokkun vara eins og þeim sýndist og myndi valda uppnámi í milliríkjaviðskiptum Íslands. FA og Íslensk-evrópska viðskiptaráðið, sem FA rekur, munu alltént gera sitt til að halda málinu áfram, því að niðurstaða íslenzkra stjórnvalda er algjörlega ótæk.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning