Óvissan slæm fyrir atvinnulífið – skynsamlegt að geyma kosningar til hausts

07.04.2016

OS RUV 060416Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sagði í fréttum RÚV að óvissa í stjórnmálunum væri slæm fyrir atvinnulífið. Skynsamlegt væri að kjósa ekki fyrr en í haust, en ljúka fyrst stórum málum á borð við losun hafta og lækkun tryggingagjalds.

„Þessi uppákoma er náttúrulega óheppileg fyrir efnahagslífið. Það hefur verið góður gangur í atvinnulífinu, við höfum séð fyrir endann á stórum málum sem er að ljúka á borði stjórnvalda, nú eru þau upp í loft, óvissa og ófyrirsjáanleiki eru aldrei góð,“ sagði Ólafur í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum.

Aðspurður hvaða áhrif það hefði ef gengið yrði strax til kosninga sagði Ólafur: „Kosningar núna strax væru ekki heppilegar, held ég, það þarf að ljúka stórum málum eins og til dæmis losun gjaldeyrishaftanna, lækkun tryggingagjalds, fleiri mál liggja fyrir þinginu sem að skipta atvinnulífið miklu máli. Út frá því held ég að það sé skynsamlegt að mæta kröfunni um að flýta kosningum en að halda þær í haust.“

Þarf að leggja vinnu í að laga orðsporið
Ólafur sagði að dæmi væru um að erlendir viðskiptavinir fyrirtækja í alþjóðlegum viðskiptum hefðu haft samband og spurt hvað væri eiginlega að gerast á Íslandi. „Auðvitað hefur þessi uppákoma haft áhrif á orðspor landsins, það er aldrei gott ef það lítur þannig út með réttu eða röngu á alþjóðavettvangi að stjórnmál hér séu spillt eða óstöðug og það má nú segja að hvort tveggja hefur verið gefið til kynna undanfarna daga,“ sagði Ólafur. Hann benti á að ríkisstjornin hefði haldið illa á málinu gagnvart erlendum fjölmiðlum og leggja þyrfti vinnu í að laga það, því að skaðað orðspor landsins hefði til dæmis neikvæð áhrif á fjárfestingarumhverfið á Íslandi.

Kvöldfréttir RÚV 6. mars 2016

Nýjar fréttir

Innskráning