Peningastefnan ekki komin að endamörkum

07.09.2020
Rannveig fundaði með félagsmönnum FA í gegnum fjarfundaforritið Zoom.

Peningastefnan er ekki komin að endamörkum og Seðlabankinn hefur enn svigrúm til að beita stjórntækjum sínum, m.a. með því að koma í veg fyrir skammtímasveiflur í gengi krónunnar og með því að bjóða innlánsstofnunum veðlán á lægri vaxtakjörum ef þær auka útlán til fyrirtækja. Þetta var á meðal þess sem kom fram á fjarfundi Rannveigar Sigurðardóttur, varaseðlabankastjóra peningastefnu, með félagsmönnum Félags atvinnurekenda í morgun.

Enn svigrúm til vaxtalækkunar
Rannveig sagði í erindi sínu, sem bar yfirskriftina „Efnahagshorfur á tímum heimsfaraldurs“, að Seðlabankinn fengi oft þá spurningu hvort peningastefnan væri komin að endamörkum. „Stutta svarið er nei. Það er enn svigrúm til að lækka meginvexti, þeir eru enn eitt prósent. Við munum áfram beita gjaldeyrisinngripum. Við erum með stóran gjaldeyrisforða og munum beita inngripum til að draga úr óhóflegum sveiflum og styðja við gengið. Við munum koma inn á markaðinn fyrir ríkisskuldabréf, í samræmi við þróun framboðs ríkisbréfa og ávöxtunarkröfu á markaði,“ sagði Rannveig.

Hún bætti við að aðrir seðlabankar í löndum þar sem vextir væru mjög lágir eða jafnvel neikvæðir, hefðu beitt tveimur tækjum til viðbótar. Annars vegar væri svokölluð framsýn leiðsögn, en í henni fælist t.d. að Seðlabankinn lýsti því yfir að hann myndi ekki hækka vexti fyrr en eftir tiltekinn tíma eða ekki hækka vexti fyrr en t.d. atvinnuleysti væri komið í tiltekna tölu. Þetta væri eitt af nýjum tækjum seðlabanka sem hefði gefið góða raun. Hins vegar væru veðlán með útlánahvata, en í þeim fælist að lánastofnanir fengju lán með hagstæðari vöxtum ef þær lánuðu til fyrirtækja.

Veðlán með útlánahvata gæti verið leiðin til að lækka vexti á fyrirtækjalánum
Það sem helst brann á fundarmönnum úr hópi félagsmanna FA voru háir vextir á lánum bankanna til fyrirtækja, en allt frá því síðla á síðasta ári hafa fyrirtæki verið ósátt við vaxtaálag bankanna, sem fór hækkandi á seinni hluta ársins 2019. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sagt að hann sé ekki sáttur við hvernig sum fyrirtækjalán séu verðlögð og að bankinn sé að skoða leiðir til þess að tryggja miðlun vaxtalækkana frá bönkum til fyrirtækja.

Rannveig var spurð hvernig Seðlabankinn gæti beitt sér til að þrýsta niður vöxtum á fyrirtækjalánum og svaraði því til að fram á síðasta ár virtist hafa átt sér stað ákveðin samkeppni milli bankanna sem hefði stuðlað að lækkun álags á fyrirtækjalán, en í fyrra hefðu bankarnir líklega endurmetið áhættuna og álagið hækkað á ný. „Einfaldasta leiðin er líklega sú að taka upp sérstök veðlán til lánastofnana með einhverjum útlánahvata á lánum til fyrirtækja,“ sagði Rannveig. „En samkvæmt þeim upplýsingum sem við fáum frá bönkunum núna er ljóst að eftirspurn er ekki mikil eins og er. Þegar fer að draga úr óvissunni gæti verið lag á að koma inn og reyna að styðja á einhvern hátt við útlánavöxt til fyrirtækja.“

Vaxtaálagið búið að ná hámarki
Rannveig sagði að ýmislegt benti til þess að vaxtaálag bankanna á fyrirtækjalánum hefði náð hámarki. „Það má gera ráð fyrir að það muni lækka eitthvað á nýjum lánum til fyrirtækja, þá kannski sérstaklega á brúar- og stuðningslánum.“

Glærur Rannveigar

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning