PFS: Íslandspóstur sýni fram á að gjaldskráin sé lögleg

04.02.2020

Félag atvinnurekenda fagnar því að Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tekur undir þau sjónarmið, sem framkvæmdastjóri félagsins setti fram í grein á vef Fréttablaðsins í síðustu viku; að óvíst sé að ný gjaldskrá Íslandspósts fyrir pakkasendingar standist lög um póstþjónustu.

Í grein Ólafs Stephensen var rakið hvernig gjaldskrá Íslandspósts (ÍSP) hækkaði um áramótin lítið eitt á höfuðborgarsvæðinu en lækkaði um tugi prósenta á öðrum dreifingarsvæðum. Bent var á að gjaldskráin væri jafnframt langtum lægri en hjá keppinautum Póstsins í pakkaflutningum út um land. Lögum samkvæmt bæri Póstinum að byggja verðskrá sína á raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði. „Nú gæti einhverjum dottið í hug að ríkisfyrirtækið, sem var næstum farið í þrot í fyrra, sé svo miklu betur rekið en landflutningafyrirtækin að þetta verð sé í samræmi við raunkostnað. Það sem er þó öllu líklegra er að hér sé um undirverðlagningu að ræða; að verð sem væri kannski rétt fyrir pakkaflutninga innan höfuðborgarsvæðisins sé látið gilda um allt land. Pósturinn hefur óskað eftir alþjónustugreiðslum úr ríkissjóði á grundvelli þessarar gjaldskrár, sem hlýtur að þýða að tap sé á þjónustunni,“ sagði í grein framkvæmdastjórans.

Pósturinn sýni fram á að verðið taki mið af raunkostnaði
Póst- og fjarskiptastofnun sendi Íslandspósti bréf í dag, þar sem farið er fram á endurskoðun gjaldskrárinnar og að það verkefni þoli ekki bið til loka ársins. Fyrir því séu m.a. eftirfarandi rök: „Að mati PFS þarf ÍSP að sýna fram á að verðlagning fyrirtækisins hverju sinni taki mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði. Á þetta sérstaklega við um kröfuna um sömu gjaldskrá um allt land þar sem ÍSP kýs að miða verðlagningu á landinu öllu við gildandi verði á svæði 1, þ.e. vegna svæða 2, 3 og 4 sem orsakar samsvarandi tekjutap á pökkum innanlands að óbreyttu.“

Frumkvæði PFS fagnað
Í bréfi PFS til Póstsins eru jafnframt tiltekin þau rök að horfa þurfi til samkeppnisástæðna á markaðnum, einkum skörunar póstmarkaðar og flutningamarkaðar á dreifingu pakka innanlands. Lagt er fyrir ÍSP að endurskoða gjaldskrána fyrir 5. maí. Í öðru skjali, sem PFS birti í dag, kemur fram að stofnunin hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort að gjaldskrá félagsins innan alþjónustu, sem tók gildi þann 1. janúar 2020, sé í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

„Við höfum boðað að við sendum erindi á PFS vegna þessarar gjaldskrár Póstsins, sem við teljum að standist ekki lög og skekki samkeppni,“ segir Ólafur Stephensen. „Við fögnum því að sjálfsögðu að PFS taki málið upp að eigin frumkvæði.“

Bréf PFS til Íslandspósts
Stöðuskjal PFS

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning