Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 16. febrúar 2021.
Morgunblaðið greindi í gær frá því að stjórn Íslandspósts hefði litið svo á, samkvæmt drögum að fundargerð sem blaðið hefur undir höndum, að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði fallizt á að ríkissjóður bætti fyrirtækinu alþjónustubyrði ársins 2020, að fjárhæð 490 milljónir króna. Þetta hefði komið fram á fundi sem Bjarni og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefðu haldið með þáverandi forstjóra og stjórnarformanni Póstsins.
Síðastliðinn föstudag hafði blaðið eftir Þórhildi Ólöfu Helgadóttur, forstjóra Póstsins, að samtal væri í gangi á milli fyrirtækisins, samgönguráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um kostnað vegna alþjónustubyrði. Rifjaði forstjórinn sérstaklega upp að Alþingi hefði ákveðið með nýjum póstlögum að eitt verð ætti að vera á pakkasendingum um allt land og verið væri að reikna út kostnað vegna þess.
Morgunblaðið hefur einnig fjallað undanfarið um áhrif pakkagjaldskrár Íslandspósts á rekstur keppinauta fyrirtækisins, staðbundinna vörudreifingarfyrirtækja víða um land, sem hafa misst mikil viðskipti eftir að stjórnendur Póstsins ákváðu að í byrjun árs 2020 skyldi verð fyrir pakkasendingar um lengri veg lækka niður í sama verð og gilti um sendingar innan höfuðborgarsvæðisins. Þannig verðleggur Pósturinn þjónustuna undir kostnaðarverði og kippir rekstrargrundvellinum undan pakkaflutningum keppinauta víða um land. Í Morgunblaðinu hefur einnig komið fram að þessi verðlagning á pakkasendingum Póstsins hafi veikt stöðu verzlana á landsbyggðinni gagnvart netverzlunum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess hversu ódýrt er orðið að fá vörurnar sendar.
Pakkagjaldskráin er ólögmæt
Þessi mál tengjast náið. Félag atvinnurekenda hefur nú í rúmlega heilt ár vakið athygli á ólögmæti undirverðlagningar Íslandspósts á pakkasendingum, en hún gengur gegn skýru ákvæði póstlaga um að verðlagning alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Það má undrum sæta að PFS hafi ekki þegar gripið inn í og stöðvað þessa ólögmætu undirverðlagningu Póstsins.
Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, sagði í viðtali við mbl.is í október síðastliðnum að það hefði verið „pólitísk ákvörðun að ríkið ætlaði að borga með þessu eina ákvæði, „eitt land, eitt verð.“ Það er ósköp einfaldlega rangt. Í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem lagði til umrætt ákvæði póstlaganna, kom hvergi fram sá skilningur að ríkið hygðist niðurgreiða þjónustuna, enda gengi það gegn öðrum ákvæðum laganna og samkeppnissjónarmiðum. Þótt Íslandspósti beri að hafa eitt verð um allt land, má það verð ekki vera undir kostnaði við þjónustuna.
Undirverðlagning er ekki alþjónustubyrði
Að Póstinum hafi verið lofað 490 milljóna króna framlagi til að standa undir alþjónustubyrði kemur líka afar spánskt fyrir sjónir. Áðurnefnt ákvæði póstlaganna um verðlagningu alþjónustu á nefnilega að koma í veg fyrir að fyrirtækið tapi á alþjónustunni – verðið á henni á að taka mið af kostnaðinum og hæfilegum hagnaði. Tap Póstsins vegna undirverðlagningar á samkeppnisþjónustu eins og pakkasendingum getur aldrei talizt til alþjónustubyrði.
Samkvæmt laganna hljóðan getur kostnaður vegna alþjónustu átt við um „tiltekna notendur eða hópa notenda sem aðeins er hægt að þjóna með tapi eða með meiri kostnaði en eðlilegt getur talist í viðskiptum, að teknu tilliti til kostnaðar og tekna af starfrækslu viðkomandi þjónustu og viðeigandi samræmdra gjalda. Undir þennan flokk falla notendur og hópar notenda sem fengju enga þjónustu hjá póstrekanda sem starfaði á viðskiptagrundvelli og væri ekki skylt að veita alþjónustu.“
Þetta á alveg augljóslega ekki við þegar stjórnendur Póstsins ákveða upp á sitt einsdæmi að undirverðleggja þjónustu á virkum markaðssvæðum, þar sem samkeppni hefur ríkt um árabil.
Raunar er mikið vafamál að Pósturinn eigi yfirleitt rétt á háum fjárhæðum úr vösum skattgreiðenda vegna alþjónustu. Í árslok 2019 tók Póst- og fjarskiptastofnun þá óvenjulegu ákvörðun, að beiðni samgönguráðuneytisins, að heimila 250 milljóna króna „varúðarframlag“ til Póstsins sem „innborgun upp í alþjónustubyrði á árinu 2020.“
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Póstinn sem út kom síðastliðið sumar kemur fram að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafi bent á að veiting alþjónustu ætti almennt ekki að vera vandamál fyrir Íslandspóst þar sem fyrirtækið fái lögum samkvæmt endurgreiddan allan kostnað sem sannanlega fellur til vegna alþjónustunnar. „Ráðuneytið telur því að fjárhagserfiðleikar Íslandspósts ohf. séu ekki tilkomnir vegna alþjónustunnar og hefur bent á að óheimilt sé að nota alþjónustuframlag til að bæta úr öðrum rekstri fyrirtækisins. Ráðuneytið hefur jafnframt bent á að ákvörðun þess um greiðslu varúðarframlags til Íslandspósts hafi verið tekin vegna erfiðrar fjárhagsstöðu fyrirtækisins,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Loforð á hvaða forsendum?
Fréttir af fundahöldum forsvarsmanna Póstsins með fjármála- og forsætisráðherra og „samtali“ á milli tveggja ráðuneyta, Póstsins og PFS, vekja óneitanlega upp spurningar um hvort rétt hafi verið að málum staðið. Fjármögnun alþjónustubyrði Íslandspósts er ekki pólitískt úrlausnarefni. PFS á að heita sjálfstæð eftirlitsstofnun og á að reikna framlagið út samkvæmt lögum og reglum.
Svo mikið er víst að ef kostnaður Íslandspósts af hinni ólögmætu pakkagjaldskrá verður greiddur úr ríkissjóði, eru skattgreiðendur að fjármagna skaðlega undirverðlagningu, sem stórskaðar samkeppni á markaði fyrir pakkadreifingu. Sú spurning vaknar óneitanlega hvort ráðherrarnir sem nefndir eru til sögu hafi látið stjórnarmenn Íslandspósts plata sig til að lofa greiðslum úr ríkissjóði sem enginn grundvöllur er fyrir.
Til að fá svar við þeirri spurningu er nauðsynlegt að birta opinberlega þá útreikninga, sem Pósturinn leggur fram til stjórnvalda til grundvallar kröfu sinni um 490 milljónir króna vegna alþjónustubyrði. Og ráðherrarnir mættu líka gjarnan gera hreint fyrir sínum dyrum og svara því hvort loforð hafi verið gefin um greiðslur og þá á hvaða grundvelli.