Pólitík brýtur lög

16.11.2017
EFTA-dómstóllinn dæmdi bann íslenskra stjórnvalda við innflutningi á ferskvöru andstætt EES-samningnum.

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 16. nóvember 2017.

Þriðjudagurinn var viðburðaríkur í baráttunni fyrir meira frjálsræði í innflutningi búvöru til landsins. Annars vegar felldi EFTA-dómstóllinn þann dóm að núverandi bann við innflutningi á ferskvöru sé í andstöðu við EES-samninginn. Hins vegar dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur ríkið til að endurgreiða þremur innflutningsfyrirtækjum samtals um 355 milljóna króna útboðsgjald vegna tollkvóta fyrir búvörur.

Bann við innflutningi ferskvöru og uppboð á tollkvótum eru tvær af undirstöðum þess múrs verndarhyggju, sem enn umlykur íslenzkan landbúnað. Þær voru engu að síður orðnar feysknar – báðir þessir dómar voru fullkomlega fyrirsjáanlegir og íslenzka ríkið stóð í fyrirfram töpuðu stríði.

Alþingi braut á sínum tíma EES-samninginn vísvitandi með því að viðhalda banni við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk. Þetta var gert þrátt fyrir að sérfræðingar hefðu gefið það álit að innflutningi ferskvöru fylgdi ekki heilbrigðisáhætta fyrir dýr eða menn. Innflutningsfyrirtæki og samtök þeirra hafa árum saman haft réttinn sín megin. Stjórnmálamönnunum hefur verið alveg sama; þeir hafa ákveðið að láta málið danka fyrir dómstólum þótt vitað væri hver niðurstaðan yrði. Nú komast þeir ekki upp með það lengur. Innflutningur ferskvöru verður leyfður og Ísland mun, eins og önnur EES-ríki, stóla á það ýtarlega eftirlitskerfi sem Evrópusambandið hefur komið upp til að lágmarka hættu á dýrasjúkdómum.

Innflutningsfyrirtæki hafa svo í annað sinn á nokkrum misserum fengið dóm um að uppboðskerfið á tollkvótum standist ekki stjórnarskrána, þrátt fyrir að reynt hafi verið að lappa upp á það. Spurningin er; ætla nýir ráðherrar að leggja upp í enn eina vegferðina til að reyna að hafa af neytendum þann ávinning, sem alþjóðasamningar um takmarkað tollfrelsi á búvörum áttu að færa þeim, eða munu þeir reyna að skapa sátt um sanngjarnara fyrirkomulag í kringum innflutning á búvörum?

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning