Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur tekið bráðabirgðaákvörðun, þar sem Íslandspóstur er stöðvaður í áformum sínum um að fella niður magnafslætti af reglubundnum viðskiptum. Hefðu þau áform gengið eftir 1. september næstkomandi eins og Pósturinn áformaði, hefðu tveir keppinautar Póstsins, póstsöfnunarfyrirtækin Póstmarkaðurinn og Burðargjöld, neyðst til að hætta starfsemi. Félag atvinnurekenda fagnar því þessari ákvörðun en lýsir um leið mikilli furðu yfir því á hvaða vegferð ríkisfyrirtækið Íslandspóstur er.
Pósturinn hefur tvisvar áður, 2012 og 2017, reynt að fella niður viðbótarafslætti stórnotenda, en í bæði skiptin verið stöðvaður af eftirlitsstofnunum. Aðeins rúmlega hálft annað ár er frá því að úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála stöðvaði Íslandspóst síðast í að segja upp afsláttarkjörum söfnunarfyrirtækja.
Myndu neyðast til að hætta rekstri
Söfnunaraðilar eru fyrirtæki sem safna saman pósti frá stórnotendum, t.d. bönkum og tryggingafélögum, og miðla áfram til Íslandspósts, sem hefur enn í reynd einokunarstöðu á markaði fyrir bréfapóst, þótt einkaréttur fyrirtækisins hafi verið afnuminn með lögum um síðustu áramót. Afsláttur upp á 2-5% hefur verið veittur þessum fyrirtækjum vegna þess hagræðis sem Pósturinn hefur af reglubundnum viðskiptum með mjög mikið magn bréfa frá söfnunarfyrirtækjunum. Viðskiptavinir söfnunarfyrirtækjanna njóta fyrir vikið mun betri kjara en þeir myndu njóta í beinum viðskiptum við Íslandspóst. Breytt póstlög gera áfram ráð fyrir að afslættir af þessu tagi séu veittir. Félag atvinnurekenda telur einsýnt að verði þessir magnafslættir afnumdir muni það kippa grundvellinum undan rekstri söfnunarfyrirtækjanna og þau neyðist til að hætta rekstri. Viðskipti þeirra munu falla ríkisfyrirtækinu sjálfu í skaut og einokunarstaða þess styrkist þá enn. Gjaldskrá til notenda póstþjónustu, sem í dag skipta við söfnunarfyrirtækin, myndi að mati félagsins hækka um allt að 70%.
FA sendi Póst- og fjarskiptastofnun umsögn um áform Póstsins, þar sem þeim var harðlega mótmælt og bent á að á nítján mánuðum sem liðnir eru frá því að úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð í sams konar máli, hafi ekkert breyst sem réttlæti niðurfellingu afsláttarins. Póstmarkaðurinn og Burðargjöld sendu jafnframt umsögn um áformin. PFS fellst á þau rök Póstmarkaðarins að skilyrði séu fyrir hendi til að taka bráðabirgðaákvörðun í málinu og tiltekur að fyrir liggi að bæði söfnunarfyrirtækin segi að þau muni hætta rekstri, gangi áformin eftir. Ákvörðun PFS frestar því gildistöku ákvörðunar Íslandspósts þar til stofnunin hefur haft ráðrúm til að ganga úr skugga um hvort áformin samræmist lögum, en þó ekki lengur en til ársloka.
Rikisfyrirtæki með pólitíska stjórn drepur samkeppni
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að hér sé í fyrsta lagi um það að ræða að Pósturinn sói tíma eftirlitsstofnana með því að reyna í þriðja sinn á átta árum að ýta póstsöfnunarfyrirtækjum út af markaðnum, eftir að hafa verið stöðvað í tvígang. „Það skýtur líka afar skökku við að á sama tíma og íslenska ríkið er í víðtækum aðgerðum með ærnum tilkostnaði til að bjarga fyrirtækjum og störfum skuli ríkisfyrirtæki með pólitískt skipaða stjórn ganga svo hart fram í að drepa af sér þá takmörkuðu samkeppni sem þrífst á póstmarkaðnum og sjá til þess að einkafyrirtækjum verði skellt í lás,“ segir Ólafur. „Að okkar mati leikur enginn vafi á því að áform Póstsins um að ganga á milli bols og höfuðs á keppinautum ganga þvert gegn sátt fyrirtækisins við Samkeppniseftirlitið frá 2017. Forsvarsmenn fyrirtækisins virðast í ofanálag hafa dottið ofan á nýjar hagfræðikenningar um að ekkert hagræði sé af reglubundnum magnviðskiptum.“