Pósturinn hækkar einkaréttarþjónustu um allt að 26,4% á níu mánuðum þótt afkoman liggi ekki fyrir

12.01.2016

Pósturinn logoPóst- og fjarskiptastofnun hefur á síðustu níu mánuðum heimilað Íslandspósti að hækka gjöld sín fyrir bréfapóst, sem ríkisfyrirtækið hefur einkarétt á að dreifa, um allt að 26,4%. Síðasta hækkunin tók gildi um áramótin.

Frá því í mars í fyrra hafa verðskrár Íslandspósts í einkarétti hækkað þannig:

1. mars 2015 1. janúar 2016 Hlutfallsleg hækkun
A-póstur 145 kr. 170 kr. 16,1%
B-póstur 125 kr. 155 kr. 24,0%
Magnpóstur A 107 kr. 130 kr. 21,5%
Magnpóstur B 87 kr. 110 kr. 26,4%

Magnpóstur í B-flokki er sá póstflokkur sem mest er notaður, fyrst og fremst af fyrirtækjum til samskipta við viðskiptavini sína, og hefur jafnframt hækkað mest. Ríflegar hækkanir póstburðargjalda voru samþykktar í lok síðasta árs, þrátt fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun hafi á sama tíma heimilað Íslandspósti að draga verulega úr þjónustu sinni í dreifbýli og dreifa pósti aðeins annan hvern virkan dag.

Athygli vekur að Póst- og fjarskiptastofnun skuli heimila þessar miklu gjaldskrárhækkanir Íslandspósts þrátt fyrir að enn sé ekki útkljáð hvort fyrirtækið hafi niðurgreitt gífurlegar fjárfestingar sínar og umsvif í óskyldum rekstri, til dæmis prentsmiðjurekstri og gagnageymslu, með tekjum af einkaréttinum. Íslandspóstur, sem er að fullu í eigu og á ábyrgð ríkisins, stendur í æ víðtækari samkeppni við einkafyrirtæki á ýmsum sviðum.

PFS viðurkennir ekki kostnaðargreiningu og bókhaldslegan aðskilnað ÍSP
Lögum samkvæmt á gjaldskrá fyrir póstþjónustu í einkarétti að taka mið af raunkostnaði að viðbættri hæfilegri álagningu. Sömuleiðis á að aðgreina skýrt kostnað vegna einkaréttar og samkeppnisrekstrar. Í tilviki Íslandspósts er raunverulegur kostnaður við einkaréttarþjónustuna hins vegar óþekktur, eins og raunar kemur skýrt fram í ákvörðun PFS um að heimila síðustu verðhækkun. Þar segir PFS beinum orðum að stofnunin hafi ekki viðurkennt kostnaðargreiningu og bókhaldslegan aðskilnað ÍSP fyrir árin 2013 og 2014. Að hluta til sé deilt um alþjónustubyrði félagsins og það mál sé nú til meðferðar hjá úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki talið sér fært að viðurkenna bókhaldsaðferðir Íslandspósts. Er því enn til staðar vafi um hvort aðskilnaður á milli einkaréttarþjónustu og samkeppnisrekstrar sé fullnægjandi. PFS hefur haldið því fram að margt bendi til að samkeppnisrekstur fyrirtækisins sé niðurgreiddur með einkaréttarstarfseminni. Af þessum sökum hefur ríkisfyrirtækið í tvö ár ekki birt í ársreikningi sínum sundurgreiningu á afkomu einstakra þjónustuþátta, þ.e. einkaréttar, samkeppnisrekstrar innan alþjónustu og samkeppnisrekstrar utan alþjónustu. Þetta er brot á ákvæðum reglugerðar um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekanda.

Í ákvörðun PFS kemur fram að niðurstaða í þessu máli muni „leiða fram endanlega afkomu einkaréttar á þeim árum sem ekki hefur verið lokið við úttekt á.“ Með öðrum orðum viðurkennir hin opinbera eftirlitsstofnun að hún heimili gjaldskrárhækkanir til að mæta miklum taprekstri ÍSP þrátt fyrir að vita ekki hvort tapið sé tilkomið í einkaréttarhluta rekstrarins eða þeim hluta sem rekinn er í samkeppni við einkafyrirtæki.

Óþolandi staða fyrir viðskiptavini og keppinauta
„Það er með talsverðum ólíkindum að Póst- og fjarskiptastofnun skuli ítrekað samþykkja tuga prósenta gjaldskrárhækkanir Íslandspósts þrátt fyrir að vita í raun ekki kostnaðargrunn fyrirtækisins eða hver afkoma einstakra þjónustuþátta þess er,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Þetta er óþolandi staða fyrir almenning og fyrirtæki í landinu sem hafa engan annan að skipta við þegar kemur að útburði bréfapósts og þetta er líka óþolandi fyrir keppinauta Íslandspósts á mörgum sviðum atvinnulífsins. Fjöldi meintra samkeppnisbrota fyrirtækisins hefur nú verið í rannsókn hjá samkeppnisyfirvöldum í allt að sjö ár án niðurstöðu.“

Ólafur ítrekar fyrri áskorun FA til Ólafar Nordal innanríkisráðherra að hún láti gera gagngera úttekt á rekstri Íslandspósts og tryggi að eftirlit með fyrirtækinu sé fullnægjandi. „Ráðherrann hefur sagt að hún telji að afnema eigi einkaréttinn og selja Íslandspóst. Fyrst þarf að komast til botns í því hvort fyrirtækið hefur farið að lögum og reglum eða hvort einkaréttarreksturinn hefur verið látinn niðurgreiða samkeppnisrekstur. Annars er augljóslega vitlaust gefið við einkavæðingu,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning