Pósturinn láti sem fyrst af skaðlegri undirverðlagningu

24.06.2021

Alþingi samþykkti, á lokaspretti þingstarfa fyrir þinglok, að afnema það ákvæði laga um póstþjónustu að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli vera sú sama um allt land. Þar með er 17. grein póstlaganna breytt til fyrra horfs og kveður eingöngu á um að gjaldskrá fyrir bréfapóst skuli vera sú sama um allt land, en sú kvöð nær ekki til gjaldskrár fyrir pakkasendingar. FA fagnar breytingunni og bindur vonir við að breytingar á pakkagjaldskrá Póstsins muni leiða til þess að hún verði í samræmi við ákvæði póstlaga um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Í tæpa 18 mánuði hefur pakkagjaldskrá Póstsins verið gróflega undirverðlögð, sem hefur komið hart niður á ýmsum einkareknum keppinautum ríkisfyrirtækisins í pakkaflutningum.

Breytingarnar á póstlögunum taka gildi 1. júlí nk. og skal ákvæðið um að pakkagjaldskrá þurfi ekki að vera sú sama um allt land vera komið til framkvæmda eigi síðar en 1. nóvember nk. FA hefur sent Póst- og fjarskiptastofnun, sem á að hafa eftirlit með gjaldskrá Póstsins, erindi og hvatt til þess að stofnunin gangi eftir því að gjaldskrá Póstsins verði breytt hið fyrsta og látið af undirverðlagningunni.

Dregið verði úr samkeppnislegum skaða
„Núgildandi gjaldskrá hefur haft gríðarlega slæm áhrif á önnur fyrirtæki á póstmarkaðnum enda felur hún í sér undirverðlagningu. Að mati FA hefur gjaldskráin allt frá ársbyrjun 2020 verið ólögmæt, enda gengur hún beint gegn 3. mgr. 17. gr. póstlaga, um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Það er því brýnt að Póst- og fjarskiptastofnun fylgi því eftir við Íslandspóst að gjaldskránni sé breytt hið fyrsta enda engin rök fyrir að draga breytingu  á langinn þó lögbundinn frestur sé til 1. nóvember. Þannig má draga úr hinum samkeppnislega skaða, sem ólögmæt gjaldskrá Íslandspósts hefur valdið,“ segir í bréfi lögfræðings FA til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Eftirlitsstofnanir brugðust hlutverki sínu
Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að lagabreytingin breyti engu um að í þá tæplega 18 mánuði sem undirverðlögð pakkagjaldskrá Íslandspósts hefur verið í gildi hafi fyrirtækið brotið gróflega gegn ákvæði laganna um að verð skuli taka mið af raunkostnaði. „Þær stofnanir sem áttu að taka í taumana, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnun, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samkeppniseftirlitið, brugðust algjörlega skyldum sínum og höfðu uppi lagatúlkanir sem stóðust engan veginn. Það mál allt er hneyksli, sem ég vonast enn til að umboðsmaður Alþingis muni taka til rækilegrar skoðunar þannig að slíkt endurtaki sig ekki,“ segir Ólafur í Morgunblaðinu.

Ólafur segir ennfremur í samtali við blaðið að PFS hljóti að efla eftirlit sitt með því að Pósturinn virði ákvæðið um raunkostnað hvað varðar gjaldskrána fyrir bréfasendingar, enda sé búið að opna fyrir samkeppni í bréfasendingum. Feli gjaldskrá bréfa í sér undirverðlagningu hindri það samkeppni.

Erindi FA til Póst- og fjarskiptastofnunar

Nýjar fréttir

Innskráning