Ráð gegn innfluttri verðbólgu

17.05.2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Fréttablaðinu 17. maí 2022.

Svokölluð innflutt verðbólga, þ.e. hækkanir á innfluttum vörum vegna mikilla verðhækkana á alþjóðlegum mörkuðum, er áhyggjuefni margra, ekki sízt vegna áhrifa á matarverð. Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins komst þó að þeirri áhugaverðu niðurstöðu að innlend matvæli, til dæmis mjólkurvörur og kjöt, hefðu hækkað mun meira en innfluttar vörur undanfarið og nefndi hagfræðingur ASÍ skort á samkeppni sem eina skýringuna á því.

Innlend búvöruframleiðsla nýtur þess að háir verndartollar eru lagðir á innfluttar búvörur. Heimildir til að flytja inn búvörur á lægri eða engum tolli, svokallaðir tollkvótar sem samið er um í alþjóðasamningum, eru takmarkaðar. Auk þess fer íslenzka ríkið þá leið að bjóða upp kvótana og slagar verðið, sem innflytjendur greiða fyrir þá, stundum upp í fullan toll á vörunni. Allt takmarkar þetta samkeppni.

Stjórnmálamenn hafa velt upp leiðum til að milda áhrif hækkandi matarverðs á almenning. Matvælaráðherrann sagði í viðtali að henni fyndist ekki útilokað að fella niður virðisaukaskatt á matvælum tímabundið. Sú leið hefði vissulega áhrif á verð, en þýddi um leið mikið tekjutap ríkissjóðs. Tekjur ríkisins af tollum eru hins vegar mjög litlar. Nærtækari leið væri því að lækka tolla. Ef kjúklingur hækkar til dæmis í verði um 500 krónur á alþjóðlegum mörkuðum, myndi lækkun tolla um 500 krónur þýða sömu vernd fyrir innlenda framleiðslu, í stað þess að innlendir framleiðendur geti hækkað sínar vörur í skjóli aukinnar verðverndar.

Í vikunni benti Félag atvinnurekenda á að sumir innlendir búvöruframleiðendur stunda þá vafasömu viðskiptahætti að bjóða hátt í tollkvóta fyrir vörur, sem eru fluttar inn í samkeppni við framleiðslu þeirra, fá þannig meirihluta kvótans í sinn hlut og geta ráðið verðinu. Önnur leið sem mætti fara til að lækka matarverð er að úthluta tollkvótum fyrir búvörur án endurgjalds, í stað uppboðanna. Samkeppniseftirlitið hefur mælt með slíkri leið, enda þýddi hún að alþjóðleg samkeppni veitti innlendu framleiðslunni meira aðhald.

Grein Ólafs á vef Fréttablaðsins

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning