Ráð sem duga

05.11.2020

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 5. nóvember 2020.

Það gengur víst ekki nógu vel hjá landbúnaðinum þessa dagana. Einhver gæti ætlað að við því vildu forystumenn hans bregðast með nýsköpun, vöruþróun og markaðssókn eins og fyrirtæki gera stundum þegar ekki gengur nógu vel. En önnur og miklu betri ráð hafa verið dregin upp úr hattinum.

Háværasta tillagan þessa dagana er að segja upp tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins, sem var gerður að beiðni landbúnaðarins sjálfs. Með honum voru frjáls viðskipti með búvörur aukin talsvert. Landbúnaðinum hefur að eigin mati ekki gengið nógu vel að flytja meira út til ESB af beztu búvörum í heimi. Hins vegar hafa búvörur frá ESB-ríkjum, sem allir eiga að vita að eru miklu lélegri en þær íslenzku, fallið í kramið hjá íslenzkum neytendum. Þetta finnst forystumönnum í landbúnaðinum ekki nógu gott. Þeir vilja snúa klukkunni aftur á bak og draga aftur úr viðskiptafrelsinu.

Bændur fá að mati talsmanna landbúnaðarins ekki nógu mikið fyrir kjöt. Tillaga að lausn á því er að hverfa til fortíðar og taka samkeppnislögin úr sambandi gagnvart kjötafurðastöðvum, þannig að þær geti haft með sér samstarf og stjórnað því betur hvað neytendur borga fyrir kjötið. Enda hefur tilraun síðustu áratuga með frjálsa samkeppni á ýmsum sviðum ekki gengið vel.

Forystumenn landbúnaðarins tala mikið um tollasvindl. Það er ólöglegt og á ekki að líðast. En þeir berjast ekki bara gegn tollasvindli. Mjólkursamsalan og Landssamband kúabænda liggja nú í tollayfirvöldum og fjármálaráðuneytinu að hækka tolla á vörum, sem lengi hafa verið fluttar inn til Íslands án tolla, t.d. pizzaostum sem framleiddir eru með jurtaolíu. Enda er augljósasta ráðið, þegar menn standa höllum fæti í samkeppni, að biðja yfirvöld að hækka skatta á keppinautana.

Þetta eru ráð sem duga. Fortíðin geymir lykilinn að framtíðinni.

Nýjar fréttir

Innskráning