Ráðherra mun leggja fram frumvarp til að breyta tollflokkun á pitsuosti

09.09.2025

Fjármálaráðherra mun leggja fram frumvarp um að breyta tollflokkun á pitsuosti með íblandaðri jurtaolíu til samræmis við ákvörðun Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) um flokkun vörunnar. Þetta kemur fram í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), sem Félag atvinnurekenda hefur fengið aðgang að. Slíkt frumvarp er þó ekki boðað í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, sem birt var í dag.

Árið 2020 var tekin ákvörðun um að flokka slíkan ost, sem félagsmaður FA flutti inn til landsins, sem venjulegan ost sem ber háa tolla, í stað þess að flokka hann sem unna landbúnaðarafurð sem á að vera án tolla samkvæmt bókun 3 við EES-samninginn. Tollflokkunarsérfræðingar skattstjóra, Evrópusambandið, þaðan sem osturinn var fluttur út, Alþjóðatollastofnunin og Eftirlitsstofnun EFTA hafa lýst sig ósammála tollflokkun íslenskra stjórnvalda. Fjármálaráðherra hugðist leggja fram frumvarp um að breyta tollflokkuninni, til samræmis við ákvörðun WCO, á síðasta þingi en þeirri ákvörðun var frestað vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum í landbúnaði.

Stefnan að fylgja ákvörðunum WCO um tollflokkun
Í bréfi ráðuneytisins til ESA er því hafnað að Ísland hafi gerst brotlegt við EES-samninginn með rangri tollflokkun vörunnar, en ESA tók síðastliðið vor ákvörðun um að svo hefði verið og sendi íslenskum stjórnvöldum formlegt áminningarbréf. Ráðuneytið segir að það sé hins vegar almenn stefna íslenskra stjórnvalda að fylgja ákvörðun WCO um tollflokkun. Í ljósi þess að endanlegur dómur hafi verið kveðinn upp í máli sem varðaði tollflokkun þessarar sömu vöru sé það eingöngu á valdi löggjafans að gera breytingu á tollflokkuninni. Fjármála- og efnahagsráðherra hafi því ákveðið að leggja fram frumvarp til að breyta tollflokkuninni til samræmis við ákvörðun Alþjóðatollastofnunarinnar. Breytingin verði hins vegar ekki afturvirk.

Í bréfinu til ESA leggur ráðuneytið áherslu á að skýrt verði kveðið á um það í frumvarpinu að viðbót annarrar fitu en mjólkurfitu við vörur, sem falli undir umrætt tollskrárnúmer, verði að hafa raunveruleg áhrif á eiginleika vörunnar. Þetta sé hugsað til að koma í veg fyrir að smávægilegu magni t.d. jurtafitu sé bætt við vörur eingöngu til að forðast tolla.

Gott fyrir matvælafyrirtæki, neytendur og Mjólkursamsöluna
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að félagið fagni því að íslenska ríkið skuli nú loks sjá að sér í þessu máli. „Ákvörðun um ranga tollflokkun þessarar vöru var tekin undir miklum þrýstingi frá hagsmunaaðilum í landbúnaði, Mjólkursamsölunni og Bændasamtökum Íslands, á kolröngum forsendum. Með þeirri ákvörðun stjórnvalda var sett stórvarasamt fordæmi um að íslenska ríkið geti krukkað í alþjóðlegu tollskrána og tollflokkað vörur ranglega ef hagsmunaaðilar krefjast þess. Fordæmið veikir einnig stöðu Íslands í deilum við Evrópusambandið um tollamál. Það er því full ástæða til að fagna því að þessi tollflokkunarfarsi sé nú vonandi brátt á enda,“ segir Ólafur. „Sú niðurstaða verður góð fyrir íslensk matvælafyrirtæki og íslenska neytendur, sem fá aðgang að góðri vöru á betra verði og líka góð fyrir Mjólkursamsöluna, sem fær heilbrigða samkeppni á markaðnum fyrir pitsuost í stað þess að sitja ein að honum. Ekkert fyrirtæki hefur gott af slíkri stöðu.“

Hann segir að það að ráðuneytið boði að leiðrétt tollflokkun vörunnar verði ekki afturvirk, þýði að fyrirtæki, sem orðið hafi fyrir tjóni vegna hinnar röngu tollflokkunar, muni þurfa að sækja það fyrir dómstólum. „Það er ekki drengileg stjórnsýsla eða til eftirbreytni að viðurkenna ekki þegar mistök eru gerð, sem er augljóslega það sem hér átti sér stað,“ segir Ólafur.

Bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins til ESA

Nýjar fréttir

Innskráning