Ráðherra leggur fram frumvarp til að laga ostaklúðrið

30.04.2018

Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, mun flytja frumvarp á Alþingi sem tryggir neytendum 104 tonn af tollfrjálsum ostum, sem þeir hefðu ella farið á mis við á árinu. FA vakti í byrjun mánaðarins athygli á því að klúður hefði orðið við samþykkt búvörusamninganna á Alþingi, en samkvæmt samkomulagi sem þá var gert átti allur tollkvótinn fyrir svokallaða sérosta að taka gildi strax við gildistöku tollasamnings Íslands og ESB. Samningurinn gengur í gildi á morgun, 1. maí.

Orðalag í lögunum var hins vegar ekki nógu skýrt að mati atvinnuvegaráðuneytisins, sem auglýsti aðeins hluta tollkvótans. FA hefur síðan fylgt málinu eftir bæði gagnvart atvinnuveganefnd Alþingis og gagnvart ráðherra og vakið athygli á að nauðsynlegt er að þessi mistök verði leiðrétt fyrir þinglok, enda eru miklir hagsmunir í húfi bæði fyrir innflytjendur matvöru og fyrir neytendur. Niðurstaðan varð sú að ráðherra myndi flytja frumvarp til breytinga á tollalögum, sem tryggi að öll sú aukning á tollkvóta fyrir sérosta, sem tollasamningur Íslands og ESB kveður á um, taki gildi á fyrsta gildisári tollasamningsins, en annars tekur stækkun á tollkvótum samkvæmt samningnum gildi í áföngum á fjórum árum.

Frumvarpið var á dagskrá ríkisstjórnarfundar á föstudag og samkvæmt upplýsingum sem FA hefur aflað sér var það samþykkt þar og verður lagt fram á Alþingi á miðvikudag.

Breytingin tekur til sérosta á borð við Parmesan eða Rochefort, sem eru skráðir í samræmi við reglur um vernd afurðaheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinn­ar sérstöðu. Samkvæmt núverandi samningi við Evrópusambandið er tollfrjáls innflutningskvóti fyrir þessa osta 20 tonn en verður samkvæmt hinum nýja tollasamningi við ESB 230 tonn.

Þessi breyting mun snarauka úrvalið í ostaborðum íslenskra verslana. Jafnframt kveða búvörulög nú á um að tollkvótum fyrir sérosta skuli úthlutað með hlutkesti en ekki útboði, þannig að á þá leggst ekki útboðsgjald. Breytingin mun þannig jafnframt stuðla að verðlækkun og aukinni samkeppni við innlendan landbúnað.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning