Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra staðfestir í grein í Morgunblaðinu í dag þann skilning sem Félag atvinnurekenda og flestir aðrir hafa lagt í nýlegar breytingar á lögum um ársreikninga, að með þeim sé gerð ársreiknings fyrir minni fyrirtæki, svokölluð örfélög, einfölduð verulega með tilheyrandi sparnaði fyrir fyrirtækin.
Fyrirtækin sem falla undir skilgreiningu á örfélögum eru 80% íslenskra fyrirtækja. Þetta eru fyrirtæki með veltu undir 40 milljónum á ári, undir 20 milljónum í bókfærðar eignir og ekki fleiri en þrjú ársverk. Lagabreytingin þýðir að þessi félög geti skilað inn skattframtali til Ríkisskattstjóra og um leið með einni skipun, „hnappnum“ skilað ársreikningi, byggðum á upplýsingum úr framtalinu. Þetta er veruleg einföldun á ársreikningaskilum fyrir þessi fyrirtæki og þýðir að þau geta sparað sér verulegan kostnað við þjónustu endurskoðenda.
Hnappurinn bara pólitískur fyrirsláttur?
Margir ráku upp stór augu yfir grein Sturlu Jónssonar endurskoðanda í Viðskiptamogganum í gær, en þar hélt hann því fram að skilningur atvinnuvegaráðuneytisins og flestra annarra á lagabreytingunum væri rangur. Ákvæðin um „hnappinn“ tækju eingöngu til opinberrar birtingar ársreiknings. „Örfélög munu, líkt og önnur félög, í öllum tilfellum þurfa að láta gera ársreikning og honum þarf að fylgja áritun skoðunarmanns eða endurskoðanda,“ segir Sturla í grein sinni.
Hann spyr þar jafnframt: „Var þá tilgangurinn með hnappnum ekkert annað en pólitískur fyrirsláttur, að boða verulegar kostnaðarlækkanir fyrir 80% félaga sem ekki er innistæða fyrir?“
Þarf ekki endurskoðanda eða skoðunarmann
Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag ítrekar Ragnheiður Elín að um leið og örfyrirtæki skili inn ársreikningi rafrænt með „hnappnum“ geti þau prentað út „fullgildan ársreikning til að leggja fyrir aðalfund félagsins án endurskoðunar eða áritunar skoðunarmanna.“
Ennfremur segir í grein ráðherra: „Marmkmiðið er að ekki þurfi eftir tilkomu „Hnappsins“ að láta útbúa sérstakan ársreikning af endurskoðanda eða fá árutun skoðunarmanns. Þess muni einungis þurfa hjá þeim félögum sem ekki uppfylli skilyrði um notkun „Hnappsins“. Í ráðuneytinu er nú unnið að nánari útfærslu „Hnappsins“ í samstarfi við ríkisskattstjóra og m.a. er nýrrar reglugerðar að vænta innan skamms.“
Mikilvægt að gera umhverfið einfaldara og skilvirkara
FA fagnar því að þessi skilningur á lagabreytingunum sé áréttaður. „Það er mjög mikilvægt að rekstrarumhverfi minnstu fyrirtækjanna sé gert einfaldara og skilvirkara. Við fögnum því að ráðherra áréttar þann skilning á lagabreytingunni sem við höfum lagt í hana,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.