Ráðherra tryggi eftirlit með Íslandspósti

21.05.2015

Pósturinn og ráðherra

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 20. maí 2015.

Pósturinn logo

Viðskiptablaðið hefur að undanförnu gert málum Íslandspósts ágæt skil. Í umfjöllun blaðsins hefur verið dregið fram hvernig ríkisfyrirtæki með einkarétt á stórum hluta starfseminnar stendur í sífellt viðameiri samkeppni við einkafyrirtæki. Sömuleiðis hvernig það er til rannsóknar vegna meintra brota á lögum um samkeppni og fjárhagslegan aðskilnað einkaréttarstarfsemi og samkeppnisrekstrar.

Í síðasta tölublaði var rætt við Ólöfu Nordal innanríkisráðherra. Hún telur stöðuna í póstmálum óviðunandi og hefur lagt til að afnema einkarétt Íslandspósts og selja svo fyrirtækið til að leysa úr málinu. Það er gott og blessað en sala Íslandspósts ein sér er ekki töfralausn. Verði fyrirtækið selt óbreytt er orðið til einkafyrirtæki, sem hefur fengið óeðlilega forgjöf. Það verður að svipta hulunni af fjárfestingum Íslandspósts í samkeppnisrekstri, opinbera hvaðan fjármagn til þeirra fjárfestinga kom og staðfesta hvort reksturinn fór út fyrir ramma laga og reglna áður en hægt er að selja fyrirtækið.

Aðspurð hvort hún hyggist láta gera úttekt á þessum atriðum vísar innanríkisráðherra á fjármálaráðherra, sem heldur á hlutabréfi ríkisins í Íslandspósti. „Það er náttúrlega alveg ómögulegt að ég sé að stíga inn á það svið,“ segir hún. Innanríkisráðherra væri hins vegar ekki að fara inn á svið fjármálaráðherrans með því að láta gera gagngera úttekt á rekstri Íslandspósts. Það er miklu nær að hún gangi inn á svið fjármálaráðherrans með því að leggja til einkavæðingu. Á því leikur hins vegar enginn vafi að á verksviði innanríkisráðherra er að gæta þess að farið sé að lögum og reglum um póstmál. Henni er því ekkert að vanbúnaði.

Bæði umboðsmaður Alþingis og úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála eru þeirrar skoðunar að Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hafi farið út fyrir valdsvið sitt og ekki rækt eftirlit sitt með Íslandspósti nægilega vel, til dæmis ekki unnið á grundvelli bókhaldsupplýsinga sem fyrirtækinu ber þó lagaskylda til að veita. Það er einmitt á verksviði innanríkisráðherra að gæta þess að Íslandspóstur fari að lögum, eftirlitið með fyrirtækinu sé í lagi og að PFS sinni hlutverki sínu. Þeirri ábyrgð er ekki hægt að vísa neitt annað.

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning