Ráðherra vill afnema bann við lyfjaauglýsingum

15.01.2015

4fcbbf953424df3Félag atvinnurekenda og samstarfsfélag þess, Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA), fagna því að heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um að afnema bann við lyfjaauglýsingum í sjónvarpi.

Félögin hafa undanfarin ár bent á að bann við auglýsingum á lausasölulyfjum í sjónvarpi feli ekki eingöngu í sér takmörkun á viðskiptafrelsi, heldur sé það einnig brot á tjáningarfrelsi og rétti neytenda til upplýsinga. Þá stenst bannið ekki skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en Evrópudómstóllinn hefur dæmt á þann veg í sambærilegu máli.

SÍA ritaði Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra bréf vegna málsins í september 2013 og skoraði á ráðherra að aðhafast í málinu, ella yrði að leita atbeina dómstóla eða Eftirlitsstofnunar EFTA vegna málsins.

„Við fögnum því að íslenska ríkið ætli að hætta að brjóta Evrópureglur sem því ber að fara eftir,“ segir Valgeir Magnússon, formaður SÍA. „Bannið við lyfjaauglýsingum í sjónvarpi hefur alla tíð verið mjög sérkennilegt. Það eru engin sjáanleg rök fyrir því að taka einn miðil út úr og banna auglýsingar sem eru leyfðar í öllum öðrum miðlum.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir mikilvægt að frumvarpið sé komið fram. Hins vegar hafi áður komið fram tillaga á Alþingi um að afnema bannið og ekki náð fram að ganga. Mikilvægt sé að þingið afgreiði málið nú hratt og vel.

„Verði bannið ekki afnumið er við því að búast að hagsmunaaðilar láti á það reyna fyrir dómi. Það er leitt ef fyrirtæki þurfa að fara þá leið til að sækja rétt sem er mjög augljós og myndi auk þess þýða mögulega bótaskyldu fyrir stjórnvöld, sem hafa viðhaldið banninu um árabil þrátt fyrir að vera fullkomlega meðvituð um ólögmæti þess,“ segir Ólafur.

Frumvarp heilbrigðisráðherra

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning