Ráðherra vill meira frelsi í innflutningi búvara

14.10.2014
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ráðherra samkeppnismála, vill engar hömlur á innflutning búvara sem ekki eru framleiddar á Íslandi. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi Félags atvinnurekenda á Nauthóli í morgun, þar sem ráðherrann var á meðal frummælenda.

 

Ragnheiður Elín rifjaði upp álit Eftirlitsstofnunar EFTA í síðustu viku, um að bann við innflutningi á hráu kjöti bryti í bága við EES-samninginn. „Ég tel ljóst að þessi niðurstaða, ef hún verður staðfest, muni breyta ýmsu fyrir neytendur, sem og fyrir bændur. Samkeppni mun aukast, hvort sem er milli íslenskra og erlendra framleiðenda eða á smásölumarkaðnum,“ sagði ráðherrann. „Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að við eigum að afnema hömlur á innflutningi á þeim matvælum sem við ekki getum framleitt. Ég hef haft ákveðinn skilning á þeim sjónarmiðum að setja takmarkanir á innflutningi annarra afurða sem eru í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu – þó ég styðji eðlilega aukna samkeppni. Þessi niðurstaða ESA, ef hún verður staðfest, mun án nokkurs vafa hafa töluverð áhrif á íslenskum matvörumarkaði.“

Þórarinn E. Sveinsson stjórnarformaður Örnu í Bolungarvík.
Þórarinn E. Sveinsson stjórnarformaður Örnu í Bolungarvík.

Viðskiptaráðherra sagðist ennfremur þeirrar skoðunar að samkeppnislög ættu að ná til allra, líka landbúnaðarins, og afnema ætti undanþágur greinarinnar frá samkeppnislögum.

 

Einokun ekki til hagsbóta fyrir neytendur

 

„Ég tel eðlilegt að samkeppnislög nái til allra atvinnugreina, þar með talið Mjólkursamsölunnar. Ég held að við séum öll sammála um að einokunarstaða, án tilefnis, leiðir til tjóns og sóunar við nýtingu framleiðsluþátta. Einokun verður seint til hagsbóta fyrir neytendur og fákeppni vinnur gegn eðlilegri framþróun, nýsköpun og frumkvöðlakrafti. Ég vil þó segja vegna umræðunnar um mjólkuriðnaðinn að sem betur fer hafa sprottið upp lítil fyrirtæki á borð við Kú og Örnu, þó þeirra innkoma inn á markaðinn hafi, eins og dæmin sanna, ekki reynst auðveld. Okkur ber að fagna komu slíkra fyrirtækja á markað því við þurfum á nýsköpun í öllum greinum að halda til að auka verðmætasköpun, fjölga störfum og nýta öll tækifæri,“ sagði Ragnheiður Elín.

 

Í svari við fyrirspurn frá framkvæmdastjóra FA sagðist hún telja að nýta ætti ölduna í kjölfar MS-ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins og gera breytingar í landbúnaðarmálunum. „Ég held við séum komin á þá braut að það er ekki aftur snúið. MS hlýtur að átta sig á því að þeirra málstaður hefur skaðast. Örnu-vörurnar rjúka út og það er frábært að sjá svona lítil fyrirtæki vaxa og dafna. Ef það er einhver sem er sigurvegari í þessu þá eru það þessi litlu fyrirtæki,“ sagði Ragnheiður Elín.

 

Stóri strákurinn setur reglurnar

 

Þórarinn E. Sveinsson, stjórnarformaður Mjólkurvinnslunnar Örnu á Bolungarvík, ræddi um samkeppnisumhverfið í mjólkuriðnaðinum og sagði að staða litlu fyrirtækjanna gagnvart MS væri erfið. Hann líkti Mjólkursamsölunni við stóra feita strákinn sem væri í fótbolta í garðinum og ætti boltann, garðinn og mörkin og setti að sjálfsögðu reglurnar. „Svo endar þetta með því að strákurinn rekur okkur úr garðinum og þá förum við í næsta garð, en það er bara eiginlega enginn annar garður af því að MS á hann líka,” sagði Þórarinn.

 

Hann sagði vonlaust að keppa við Mjólkursamsöluna í verði. Hins vegar væri hægt að keppa í gæðum, sérstöðu eða faglegum yfirburðum.

 

Sektir geta bitnað á neytendum

 

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögmaður hjá Lex, var í erindi sínu gagnrýnin á viðurlög við brotum í samkeppnismálum. Hún sagði hættu á að háar sektir eins og sú sem var lögð á MS bitnuðu á neytendum. „Sektir í samkeppnismálum eru ekkert öðruvísi en annar kostnaður sem fyrirtæki verða fyrir, vörugjöld, skattar eða hvaðeina sem fyrirtæki þurfa að standa undir í rekstri sínum. Auðvitað þurfa þau einhvern tímann að hagræða, hækka verð, sleppa því að fara út í einhvers konar rannsóknir og þróun – og hvað gerist þá? Það er varla til ábata fyrir neytendur að menn fari ekki í fjárfestingar, reksturinn blómgast ekki vegna þess að fjármunirnir fara í sektirnar. En auðvitað skilur maður það sjónarmið að það þurfi að vera einhver varnaðaráhrif ef menn hafa þessi lög og sektirnar eru ein leiðin,“ sagði Heiðrún Lind.

 

Sjá erindi Ragnheiðar Elínar hér

 

Sjá glærur Þórarins E. Sveinssonar hér

 

Sjá glærur Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur hér

Nýjar fréttir

Innskráning